Bein útsending frá lokaborði ÍM 2020

Það verður glæsileg mynd-útsending frá lokaborðinu í póker í dag og Magnús Valur Böðvarsson verður með beina lýsingu úr myndveri.

> Bein útsending frá lokaborði ÍM í póker 2020 <

Lokaborð á ÍM 2020

Það voru alls 96 sem skráðu sig til leiks á Íslandsmótinu í póker sem hófst á miðvikudag og lýkur á morgun, sunnudag. 15 efstu munu skipta á milli sín tæpum 6,2 milljónum króna og fær Íslandsmeistarinn 1,4 milljónir í sinn hlut. Í kvöld var leikið þar til einungis 9 stóðu eftir og lokaborðsbúbblan sprakk um hálftólfleytið í kvöld og nú standa aðeins eftir þeir sem munu leika til þrautar þegar lokaborðið á ÍM 2020 hefst kl. 13:00 á morgun, sunnudaginn 7.mars.

Þeir 9 sem komust á lokaborðið voru eftirfarandi (ásamt stakkstærð og sætisnúmeri á lokaborðinu):

  1. Logi Laxdal, 862.000, sæti 2
  2. Gunnar Árnason, 616.000, sæti 4
  3. Óskar Þór Jónsson, 582.000, sæti 3
  4. Wilhelm Nordfjord, 463.000, sæti 5
  5. Halldór Már Sverrisson, 446.000, sæti 6
  6. Vignir Már Runólfsson, 433.000, sæti 7
  7. Jónas Nordquist, 287.000, sæti 9
  8. Andrés Vilhjálmsson, 76.000, sæti 1
  9. Sævaldur Harðarson, 53.000, sæti 8

Meðalstakkur er 430k / 53bb.

Magnús Valur Böðvarsson var með skemmtilega textalýsingu, eins og honum einum er lagið frá því síðdegis í dag og allt til loka dags 2. Hér má finna tímasetta lýsingu hans. Og hér er síðan að finna allar upplýsingar um stöðu og sæti hvers þátttakanda í mótinu.

Sýnt verður beint frá lokaborðinu í fyrsta sinn í mörg ár og verður Magnús Valur nú í hljóðverinu og mun gefa okkur innsýn í það sem fyrir augu ber. Við munum senda nánari upplýsingar hér og á facebook um það hvar hægt verður að nálgast útsendinguna.

Samhliða lokaborðinu verður glæsilegt hliðarmót með 20k þátttökugjaldi og ótakmörkuðu re-entry. Mótið verður með gjöfurum á öllum borðum, 20k stakk og 30 mín. levelum og að öðru leyti sama strúktúr og notaður er á Íslandsmótinu. Langt, hægt og djúsí mót sem enginn má missa af! Skráning og greiðsla þátttökugjalda fer fram hér á vef PSÍ.

Við óskum lokaborðs hópnum til hamingju með þennan glæsilega árangur og óskum þeim góðs gengis á morgun!

Bein lýsing frá degi 2 á ÍM 2020

Magnús Valur Böðvarsson er mættur í hús og mun halda úti beinni lýsingu frá degi 2 á ÍM 2020.

> Bein lýsing frá degi 2 á ÍM í póker 2020 <

Staðan eftir dag 1 á ÍM 2020

Degi 1C var að ljúka núna um miðnættið og af þeim 95 sem hófu leik þá standa nú 67 eftir í upphafi dags 2 sem hefst kl. 12:00 á morgun, laugardaginn 6. mars.

Björn Sigmarsson hefur talsverða forystu í upphafi dags 2 með 205.000 en upphafsstakkur var 40.000. Óskar Þór Jónsson er annar í röðinni með 144.200, Gunnar Gunnarsson er þriðji með 127.200 og nýbakaður PLO meistari, Egill Þorsteinsson fylgir fast á hæla hans með 125.400.

Bein lýsing hefst hér á vef PSÍ kl. 16:30 á degi 2 og er það hinn góðkunni Magnús Valur Böðvarsson sem mun sjá um lýsinguna. Á sunnudag verður síðan bein myndsending frá lokaborðinu og verður Magnús þá í myndverinu og gefur áhorfendum innsýn í það sem er að gerast við borðið.

Hér að neðan má sjá borðaskipan í upphafi dags 2 og stöðu allra keppenda má finna í þessu skjali hér undir flipanum “Entries”: https://cutt.ly/GkTXhXo

Frá ársþingi 2021

Ársþing PSÍ var haldið í gær, sunnudaginn 28.febrúar 2021.  Þingið fór fram á veitingastaðnum Hereford og mættu 4 félagsmenn til fundar en einnig var hægt að fylgjast með fundinum á Zoom.  Það er oft sagt að það sé merki um almenna ánægju með stjórnun félagasamtaka þegar fáir mæta til aðalfundar og vonum við að fámennið megi túlka sem svo.

Allir aðalmenn í stjórn gáfu kost á sér til áframhaldandi setu og kom einn nýr varamaður inn í stjórn.

Stjórn PSÍ skipa nú:

  • Már Wardum, formaður
  • Jón Ingi Þorvaldsson, gjaldkeri
  • Einar Þór Einarsson, ritari
  • Guðmundur Helgi Helgason, varamaður
  • Sunna Kristinsdóttir, varamaður

Í mótanefnd eru:

  • Viktor Lekve
  • Einar Þór Einarsson
  • Guðmundur Helgi Helgason

Laga- og leikreglnanefnd skipa:

  • Jón Ingi Þorvaldsson
  • Sunna Kristinsdóttir
  • Einar Þór Einarsson

Skoðunarmenn reikninga eru:

  • Ottó Marwin Gunnarsson
  • Jónas Tryggvi Stefánsson

Tvær breytingar voru gerðar á reglugerð sambandsins um mótahald og eru þær þegar komnar hér inn á vef PSÍ. Annars vegar var bætt inn grein 5 sem lýtur að hreinlæti og neyslu matar og drykkjar við keppnisborð. Hins vegar var grein 7. breytt til samræmis við reglur TDA um fjölda á lokaborði.

106 félagsmenn greiddu árgjald á árinu 2020, heildarvelta sambandsins var 3,9 mkr. og afkoma af rekstri var neikvæð um 492 þús kr. á árinu.

Nánari upplýsingar um Íslandsmótið í póker 2020

Nú er bara eitt mót eftir á mótadagskránni fyrir 2020 áður en við getum formlega hafið nýtt mótaár og það er stærsti viðburður ársins, Íslandsmótið í póker 2020.

Mótið verður haldið í sal Póker Express, Nýbýlavegi 8, 2. hæð, Kópavogi og hefst miðvikudaginn 3. mars kl. 17:00 og lýkur sunnudaginn 7. mars með lokaborði og 20k hliðarmóti.

Þátttökugjald er kr. 75.000 ef greitt er fyrir hádegi þriðjudaginn 2. mars og hækkar þá í kr. 80.000. Skráningarfrestur rennur út í upphafi á leveli 9. Greiðsla árgjalds PSÍ fyrir 2020 er skilyrði fyrir þátttöku.

Skráning og greiðsla þátttökugjalda fer eingöngu fram hér á vef PSÍ.

Dagskráin verður sem hér segir mótsdagana:

  • Miðvikudagur 3. mars kl. 17:00 – Dagur 1a
  • Föstudagur 5. mars kl. 17:00 – Dagur 1c
  • Laugardagur 6. mars kl. 12:00 – Dagur 2
  • Sunnudagur 7. mars kl. 13:00 – Dagur 3, lokaborð
  • Sunnudagur 7. mars kl. 14:00 – 20k re-entry hliðarmót

Sjá nánari upplýsingar um dagskrá og strúktúr hér: https://cutt.ly/GkTXhXo

Hliðarmótið verður með 30mín levelum og sama strúktúr og Íslandsmótið, með 20k stakk og ótakmarkað re-entry.

Við hvetjum alla til að skrá sig á þetta facebook event hér: https://www.facebook.com/events/168267471726139

Eins og fram hefur komið var ákveðið að fella dag 1b niður og rýmka fjöldatakmarkanir á dögum 1a og 1c úr 40 í 64. Skráningar umfram 64 hvorn dag fara á biðlista og komast leikmenn þá að um leið og sæti losna.

Sóttvarnarreglur þær er PSÍ hefur kynnt hér verða í gildi og við viljum biðja alla um að virða sérstaklega eftirfarandi reglur:

  • Keppendur og starfsfólk skulu bera viðurkenndar andlitsgrímur inni á mótsstað.
  • Ekki er grímuskylda fyrir leikmenn og gjafara þegar setið er við keppnisborð á meðan á leik stendur.
  • Keppendur skulu sótthreinsa hendur í hvert sinn sem sest er til keppnisborðs og í hvert sinn sem staðið er upp frá borði.
  • Keppendur og starfsfólk skulu varast alla snertingu við aðra einstaklinga á mótsstað Keppendur skulu einnig varast alla snertingu við andlit á meðan á leik
    stendur.
  • Öll neysla matvæla er óheimil við keppnisborðin. Neysla áfengis er ekki heimil inni á keppnissvæðinu.

Og svo er vert að minna á farsímareglurnar:

  • Hafið ávallt slökkt á hringitónum í símum á mótsstað.
  • Notkun farsíma er heimil á meðan leikmaður er ekki með lifandi hendi fyrir framan sig.
  • Ef sími er notaður á meðan leikmaður er í hendi er gefin ein aðvörun, eftir það mun gjafari drepa hendi leikmanns.
  • Sími má ekki liggja inni á keppnisborði.
  • Ekki má tala í síma við keppnisborð. Leikmenn eru beðnir um að yfirgefa mótssalinn til þess að tala í síma.

Allir sem skráðir eru til leiks í gegnum undanmót munu fá tölvupóst til staðfestingar á því að morgni þriðjudags 2. mars.

Mótið er leikið skv. reglum TDA og reglugerð PSÍ um mótahald.

Stakkur fer ekki inn á borð fyrr en keppandi mætir til leiks, eða þegar skráningarfrestur rennur út.

Samningar um verðlaunafé eru ekki leyfðir á Íslandsmótum og mótið skal leikið til enda til að skera úr um sigurvegara.

Skráið ykkur tímanlega þar sem gera getur þurft eitthvað af tilfærslum á leikmönnum á milli daga.

Vinsamlegast hafið skilríki meðferðis þegar þið komið á mótsstað.

Við óskum öllum þátttakendum góðs gengis!

Egill vinnur PLO titilinn 2020

Síðbúið Íslandsmót í Pot-Limit-Omaha póker fyrir mótaárið 2020 var haldið í gær í sal Poker Express í Kópavogi. Alls tóku 20 manns þátt í mótinu og voru að auki 9 re-entry í mótið og er það 38% fjölgun frá fyrra ári.

Það var Egill Þorsteinsson sem stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa lagt Einar Eiríksson að velli heads-up. Egill skipar sér óneitanlega í flokk eins af okkar sterkustu spilurum með þessum árangri en hann varð m.a. í öðru sæti á Íslandsmótinu í póker (NLH) 2019 auk þess að hafa náð góðum árangri á fleiri mótum. Þess má til gamans geta að Einar Eiríksson ákvað að taka þátt á síðustu stundu og keypti sig inn þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af skráningarfrestinum.

Mótsstjóri var Einar Þór Einarsson og gjafarar voru Sigurlín (Silla) Gústafsdóttir, Alexander Sveinbjörnsson og Kristján Valsson.

Verðlaunafé á mótinu var alls 1.015.000 og var kostnaðarhlutfall 12,5%. Verðlaunaféð skiptist á milli 5 efstu spilara með eftirfarandi hætti:

  1. Egill Þorsteinsson, 355.000
  2. Einar Eiríksson, 264.000
  3. Sævar Ingi Sævarsson, 183.000
  4. Gunnar Árnason, 122.000
  5. Halldór Már Sverrisson, 91.000

Við óskum Agli til hamingju með titilinn og þökkum öllum þátttakendum fyrir gott mót og starfsólki mótsins fyrir vel unnin störf!

Íslandsmótið í PLO 2020

Næsta mót á dagskrá hjá okkur er síðbúið Íslandsmót í PLO fyrir 2020.

Mótið fer fram laugardaginn 27. febrúar hjá Poker Express, Nýbýlavegi 8, og hefst kl. 14:00.

Þátttökugjald er kr. 40.000 ef greitt er fyrir kl. 12:00 laugardaginn 27. febrúar.
Eftir það hækkar gjaldið í 45.000.

Boðið er upp á eitt re-entry í mótið.

Skráningarfrestur og frestur til að kaupa sig inn aftur rennur út eftir level 8 eða um kl. 18:30.

Mótsstjóri verður Einar Þór Einarsson.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag móts og strúktúr má finna hér.

Undanmót fyrir Íslandsmótið í PLO:

  • Sunnudag 20. feb. kl. 18:00 – Coolbet, €20 með re-entry.
  • Þriðjudag 22. feb. kl. 19:30 – Poker Express, Nýbýlavegi 8
  • Miðvikudag 23. feb. kl. 20:00 – Coolbet, €20 með re-entry.
  • Fimmtudag 24. feb. kl. 19:00 – Hugaríþróttafélagið, Síðumúla 37

Einn miði tryggður í hverju undanmóti!!

Facebook event: https://www.facebook.com/events/451239512898528

Mótanefnd PSÍ áskilur sér rétt til þess að fella mótið niður ef fjöldi skráðra þátttakenda verður undir 12 við upphaf móts. Nýtt verður heimild í reglugerð PSÍ um mótahald til þess að tryggja að kostnaðarhlutfall fari ekki yfir 15%. Því er tryggt að amk. 85% af þátttökugjöldum fari í verðlaunafé.

Íslandsmót í póker 2020

Nú er loksins að opnast á mótahald hjá okkur og við ætlum að klára mótadagskrána fyrir 2020 með glæsibrag og blásum til Íslandsmóts í PLO 27. febrúar og Íslandsmótsins í póker dagana 3.-7. mars. nk.

Mótin fara fram í sal Póker Express við Nýbýlaveg 8 og verður dagur 1 á ÍM í póker nú þrískiptur þar sem hámarksfjöldi þátttakenda á hverjum degi verður 40. Hámarksfjöldi þátttakenda á PLO Íslandsmótinu verður einnig 40. Ef fjöldi fer upp fyrir það fara umframskráningar á biðlista.

Skráning og greiðsla þátttökugjalda er hafin á vef PSÍ (www.pokersamband.is/shop)

Dagur 1a, miðvikudaginn 3. mars verður tekinn frá fyrir þá sem hafa unnið og munu vinna miða á undanmótum.

Dagur 1b, fimmtudaginn 4. mars er opinn fyrir skráningar og dagur 1c verður síðan opnaður þegar dagur 1b fyllist og við munum reyna eftir bestu getu að haga málum þannig að þeir sem koma utan af landi geti leikið dag 1c á föstudeginum.

Við viljum biðja félagsmenn um að sýna því skilning að strangar sóttvarnarreglur verða í gildi og allt skipulag mótsins mun bera keim af því. Við viljum einnig biðja þátttakendur að sýna því skilning ef færa þarf skráningar á dag 1 á milli daga. Núgildandi sóttvarnarreglur PSÍ má finna hér og verða þær nánar kynntar þegar nær dregur.

Strúktúr og dagskrá fyrir ÍM í póker 2020 má finna hér.

Skráið ykkur endilega á facebook event sem sett hafa verið upp:

ÍM í póker 2020 event á facebook

ÍM í PLO 2020 event á facebook

Ársþing PSÍ 2021

Ársþing Pókersambands Íslands 2020 verður haldið á veitingastaðnum Hereford, Laugavegi 53b. sunnudaginn 28. febrúar kl. 16:00.

Dagskrá verður skv. 6. grein laga sambandsins sem finna má hér á vef PSÍ.

Áður en þingið hefst mun fara fram verðlaunaafhending fyrir nokkur mót sem haldin voru 2020 og ekki var búið að ná að halda afhenda verðlaun fyrir, það eru Coolbet bikarinn, Bikarmótið, Quarantine Cup, ÍM í net-póker og ÍM í net-PLO.

Við hvetjum alla félasgmenn til þess að mæta hvort sem þið gefið kost á ykkur til starfa fyrir sambandið eður ei.

Fundurinn verður í beinni útsendingu á Zoom með þessum tengli hér.