Smábokki 2021

Þá gerum við lokatilraun til þess að halda Smábokka þetta árið! Mótið verður haldið dagana 10.-12. júní nk. og verður dagur 1 að venju leikinn í tvennu lagi, dagur 1a á fimmtudegi og dagur 1b á föstudegi.

Þetta mót er af mörgum talið eitt skemmtilegasta mótið á dagskrá PSÍ enda er mótið eins konar mini útgáfa af Íslandsmótinu og á verði við flestra hæfi.

Þátttökugjald er kr. 25.000 og skráning er þegar hafin á vef PSÍ. (Ath. Þátttökugjaldið hækkar í 28.000 kl. 12:00 á hádegi á degi 1a og 1b).

Mótið hefst kl. 19:00 á fimmtudegi og föstudegi, skráningarfrestur rennur út kl. 23:30 á degi 1a og 1b og er leikið til miðnættis hvorn daginn. Dagur 2 hefst kl. 13:00 og verður boðið upp á 10k re-entry hliðarmót kl. 14:00.

Undanfarin ár hefur verið boðið upp á eitt re-entry á milli daga og verður nú gerð sú breyting að hægt verði að nýta re-entry hvort heldur sem er innan dags eða yfir á næsta dag. Í lok dags 1a er boðið upp á að gefa eftir stakk (forfeit) og hefja leik 1b að nýju.

Skráið ykkur á FB eventið til að fylgjast nánar með upplýsingum um undanmót og fleira í tengslum við Smábokka 2021!

Dagskrá og strúktúr mótsins má finna hér.

Bræðingur 2021

Bræðingur mun fara fram í annað sinn fimmtudaginn 3. júní en þetta mót var haldið í fyrsta sinn í fyrra í tilraunaskyni og gekk vonum framar. Í þessu móti bræðum við saman net-póker og live póker með tveggja daga móti sem hefst á Coolbet og lýkur svo með 9 manna live lokaborði með gjafara laugardaginn 5. júní kl. 14:00 hjá Hugaríþróttafélaginu, Síðumúla 37.

Þeir sem komast á lokaborðið taka með sér stakkinn sem þeir enduðu dag 1 með á netinu (eða hlutfallslega jafn stóra stakka ef aðlaga þarf stærðir) og leika þar til þrautar augliti til auglitis.

Þátttökugjald er €50 og boðið verður upp á ótakmarkað re-entry fyrstu 10 levelin.

Ekki er tryggt verðlaunafé í mótinu en PSÍ mun láta þátttökugjöld sem greidd eru til Coolbet renna óskipt í verðlaunafé, þ.e.a.s. ekkert er tekið af verðlaunafé fyrir kostnaði við að halda mótið, en aðild að PSÍ er skilyrði fyrir þátttöku í mótinu. Ganga verður frá aðild að PSÍ í síðasta lagi kl. 16:00 fimmtudaginn 3. júní. Hægt er að ganga frá aðild að PSÍ fyrir 2021 með nokkrum músarsmellum á þessari síðu hér.

Coolbet bikarinn hefst á sunnudag!!

COOLBET bikarinn 2021 hefst á sunnudag og verða 4 umferðir leiknar núna fram í miðjan júní og þá tökum við frí fram í lok ágúst og leikum seinni 4 umferðirnar þá og endum á lokaborði 26. september þar sem keppt verður um glæsilega aukavinninga (Added Value) frá Coolbet fyrir efstu 4 sætin:

 1. sæti – Miði á Coolbet Open Main Event (€550) auk hótelgistingar + €200 í farareyri
 2. sæti – Miði á Coolbet Open Main Event (€550) auk hótelgistingar + €200 í farareyri
 3. sæti – Miði á Coolbet Open Main Event (€550)
 4. sæti – Miði á Coolbet Open Main Event (€550)

Coolbet Open er nú ráðgert 8. – 14. nóvember 2021 í Tallinn, Eistlandi. Á Coolbet Cup 2020 voru einnig veittir miðar á mótið í verðlaun og gilda þeir miðar á mótið núna í haust. Það má því gera ráð fyrir góðri hópferð til Tallinn í nóvember en Coolbet Open fer fram í vikunni eftir Íslandsmótið í póker.

Þátttökugjald í hverri umferð verður €50 og verður boðið upp á eitt re-entry. Veitt verða stig fyrir öll sæti í hverri umferð, frá 20 og niður í 1 með sama hætti og í fyrra nema hvað nú höfum við þann háttinn á að 9 efstu komast á lokaborð, en í fyrra var stigatalan ein látin ráða úrslitum.

4 efstu á lokaborðinu skipta síðan á milli sín þessum glæsilegu aukavinningum sem eru samlagt yfir €3700 (550.000 ISK) virði og er hrein viðbót við verðlaunafé í mótaröðinni.

Aðild að PSÍ er skilyrði fyrir þátttöku í stigakeppninni og Coolbet og PSÍ áskilja sér rétt til þess að birta raunveruleg nöfn sigurvegara og verðlaunahafa.

Dagskrá mótanna og aðrar nánari upplýsingar má finna hér.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun!!

Val á landsliði PSÍ

Í apríl auglýsti stjórn PSÍ eftir áhugasömum einstaklingum til að taka þátt í landsliði í því sem við höfum valið að kalla “keppnispóker” (match poker). En samtökin IFMP (International Federation of Match poker) eru nú að fara af stað aftur með alþjóðleg mót í póker skv. því fyrirkomulagi sem samtökin hafa þróað og kalla “Match poker”. Þetta fyrirkomuleg er nokkuð frábrugðið hefðbundnum mótum í NL Holdem en í þessum mótum er spiluð nákvæmlega sama höndin samtímis á öllum borðum, á hverju borði situr einn úr hverju liði þannig að allir keppendur í sama liði spila öll spot í hverri hendi. Þannig er það eingöngu hæfni og ákvarðanir spilara sem ráða úrslitum en ekki heppni í því hvernig spilin falla. Og fyrir vikið þá hefur IFMP fengið þetta afbrigði af póker viðurkennt sem hugaríþrótt á alþjóðavettvangi.

25 einstaklingar sóttu um að fá að taka þátt í verkefninu og hefur stjórn PSÍ, með fulltingi mótanefndar, valið 10 úr þeim hóp til þess að skipa landsliðshóp. Valið byggir m.a. á þátttöku og árangri í mótum á vegum PSÍ auk þess sem IFMP gerir kröfu um að í hverju liði séu keppendur af báðum kynjum.

Landsliðshópinn skipa eftirfarandi:

 • Daníel Pétur Axelsson
 • Egill Þorsteinsson
 • Einar Þór Einarsson
 • Garðar Geir Hauksson
 • Gunnar Árnason
 • Halldór Már Sverrisson
 • Inga “Poko” Guðbjartsdóttir
 • Kristjana Guðjónsdóttir (Jana)
 • Magnús Valur Böðvarsson
 • Sævar Ingi Sævarsson

Fyrstu verkefni hópsins verða þátttaka í undanmótum fyrir heimsmeistaramót sem fyrirhugað er í lok nóvember 2021. Undanmótin fara fram núna í júní og verður keppt yfir netið þannig að hvert lið situr í sínu heimalandi en gert er ráð fyrir að HM fari fram live einhversstaðar í Evrópu. Már Wardum, formaður PSÍ, mun leiða þetta verkefni og sjá um utanumhald landsliðs, m.a. skipulagningu æfinga og samskipti við IFMP.