Um ábyrgð og hegðun leikmanna

Hér eru nokkur atriði sem lekmenn þurfa að hafa í huga um ábyrgð sína og hegðun í leik á pókermótum:
 • Leikmenn þurfa að ganga úr skugga um að þeir sitji í réttu sæti á réttu borði.
 • Leikmenn bera ábyrgð á því að tryggja að þeim hafi verið gefinn réttur fjöldi spila áður en byrjað er að spila hönd.
 • Það er á ábyrgð leikmanna að vernda lifandi hönd sína hverju sinni. Það að sitja við borðið er órjúfanlegur hluti af því.
 • Leikmaður ber ábyrgð á því að vernda rétt sinn til þess að gera.  Ef leikmaður verður var við að hlaupið hafi verið yfir hann skal hann benda á það umsvifalaust eða hann getur að öðrum kosti mögulega fyrirgert rétti sínum til að gera.
 • Allir leikmenn skulu umsvifalaust benda á mistök sem verður vart við í pókermóti, t.d. ef um er að ræða ranga talningu á pottum eða boðum, rangur lestur á borðinu eða tilteknum höndum, pottur afhentur röngum leikmanni, leikmaður í röngu sæti, o.s.frv.
 • Leikmenn þurfa að gera allar aðgerðir sínar skýrar og greinilegar og passa að gera einungis þegar að þeim er komið.
 • Leikmenn skulu hafa hönd sína sýnilega og stafla spilapeningum sínum þannig að hægt sé að henda reiður á stærð stafla og sér í lagi að hafa stærstu spilapeninga vel sýnilega hverju sinni.
 • Leikmenn skulu sýna hönd sína (bæði/öll spil) umsvifalaust þegar kemur að show-down.
 • Leikmenn skulu leitast við að tefja ekki leik, taka sér hæfilegan tíma í umhugsun, og að sama skapi kalla eftir niðurtalningu (calling the clock) ef aðrir leikmenn verða uppvísir að því að tefja leik eða taka sér óhóflegan umhugsunartíma.
 • Þegar leikmenn eru fluttir á milli borða skulu þeir taka hið nýja sæti eins fljótt og unnt er.  Hafa skal spilapeninga sýnilega og í rekkum/bökkum þegar þeir eru fluttir á milli borða.
 • Aðeins einn leikmaður skal koma að ákvörðun í hverri hönd (one player to a hand).
 • Tilkynna skal mótsstjóra ef vart verður við hegðun sem brýtur á einhvern hátt í bága við reglur eða ef einhverjum leikmanni er sýnd óvirðing eða ósæmileg hegðun.
 • Haga skal samræðum við leikborð þannig að ekki hljótist af þeim truflun fyrir leikmenn sem eru með lifandi hönd.  
 • Leikmenn mega ekki greina frá hönd sinni eða sýna öðrum leikmönnum á meðan verið er að leika höndina, ekki heldur eftir að henni hefur verið foldað og aðrir leikmenn eru enn í sömu hönd. 
 • Leikmenn skulu ekki gefa til kynna ætlun sína með neinum hætti, með orðum eða gerðum, fyrr en að þeim kemur að gera.
 • Leikmenn skulu sýna af sér almenna snyrtimennsku (hygiene) og sýna öðrum leikmönnum og starfsfólki móta virðingu í hvívetna.
 • Allt svindl er refsivert, s.s. að leika hönd þannig að augljóslega sé verið að gefa eftir (soft play).  Það að augljóslega fórna stafla til annars leikmanns (chip dumping), eða hvers kyns annars konar samráð milli leikmanna, leiðir til brottrekstrar úr móti.

(Síðast uppfært 5.maí. 2023)