MrDude er óstöðvandi

Einar Þór Einarsson (MrDude), ritari stjórnar PSÍ, er á óstöðvandi sigurgöngu þessa dagana. Hann vann nýverið Íslandsmeistaratitilinn í net-PLO og gerði sér lítið fyrir og vann einnig sigur í Coolbet bikarnum sem lauk í gærkvöldi. Hann hlýtur að launum €1600 pakka frá Coolbet á pókerhátíðina Poker North Masters sem fram fer í Bratislava í lok mars.

Í öðru sæti var Rúnar Rúnarsson (rudnar) og fær hann einnig sama pakka og Einar að launum. Í þriðja og fjórða sæti urðu Brynjar Bjarkason (makk) og Piotr Wojciechowski (Peturpolski) og fá þeir báðir €800 pakka á pókerhátíðina í Bratislava en það dekkar miða á aðalmót hátíðarinnar.

Aðrir sem komust á lokaborðið voru vedurgudinn, DFRNT, atli951, WhiskyMaster og OtherFkr og fá þeir allir Coolbet Passport miða að launum að jafnvirði €130 inn í undanmót fyrir Bratislava hátíðina.

Alls tóku 55 manns þátt í mótaröðinni að þessu sinni og er það besta þátttaka frá upphafi en þetta var í fjórða sinn sem við keyrum þessa mótaröð í samstarfi við Coolbet.

Við óskum Einari til hamingju með glæsilegan árangur og öðrum verðlaunahöfum sömuleiðis. Við þökkum félagsmönnum fyrir frábærar viðtökur og Coolbet fyrir frábært samstarf við framkvæmd mótaraðarinnar.

Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér pókerhátíðina Poker North Masters og skella sér í þessa FB grúppu hér ef þið ætlið að slást í för með þeim hópi Íslendinga sem ætlar að leggja land undir fót og skella sér út.

Lokastöðuna í stigakeppni Coolbet bikarsins má finna hér.

Smábokki 2023

Þetta mót er af mörgum talið eitt skemmtilegasta mótið á dagskrá PSÍ enda er mótið eins konar mini útgáfa af Íslandsmótinu og á verði við flestra hæfi.

Þátttökugjald er kr. 30.000 og skráning er þegar hafin á vef PSÍ. (Ath. Þátttökugjaldið hækkar í 33.000 kl. 12:00 á hádegi á fimmtudag).

Mótið fer fram í sal Hugaríþróttafélagsins, Mörkinni 4 og hefst kl. 19:00 á fimmtudegi og föstudegi. Skráningarfrestur rennur út kl. 23:30 á degi 1a og 1b og er leikið til miðnættis hvorn daginn. Dagur 2 hefst kl. 13:00 á laugardeginum.

Boðið er upp á eitt re-entry sem hægt er að nota hvorn daginn sem er. Í lok dags 1a er boðið upp á að gefa eftir stakk (forfeit) og hefja leik 1b að nýju.

Hægt verður að krækja í miða frá aðeins €10 á undanmótum sem Coolbet heldur eftirtalda daga:

 • Sunnudag 26. febrúar kl. 20:00
 • Mánudag 27. febrúar kl. 20:00
 • Þriðjudag 28. febrúar kl. 20:00

Skráið ykkur á FB eventið til að fylgjast nánar með upplýsingum um undanmót og fleira í tengslum við Smábokka 2023!

Dagskrá og strúktúr mótsins má finna hér.

Frá ársþingi PSÍ 2023

Það var fámennt en einstaklega góðmennt á ársþingi PSÍ sem fram fór 5.febrúar 2023. Fundurinn var haldinn í netheimum að þessu sinni og mættu fjórir til fundar.

Það bar helst til tíðinda að nánast ekkert bar til tíðinda. Stjórn var endurkjörin og fastanefndir að mestu óbreyttar. Og þrátt fyrir að verðbólga sé í hæstu hæðum var ákveðið að halda árgjaldi óbreyttu, eða kr. 6000.

Stjórn PSÍ skipa:

 • Már Wardum, formaður
 • Jón Ingi Þorvaldsson, gjaldkeri
 • Einar Þór Einarsson, ritari
 • Jónas Tryggvi Stefánsson, varamaður
 • Guðmundur Helgi Helgason, varamaður

Laga og leikreglnanefnd skipa:

 • Einar Þór Einarsson
 • Jónas Tryggvi Stefánsson
 • Jón Ingi Þorvaldsson

Einar Þór Einarsson veitir mótanefnd PSÍ forstöðu og verða aðrir skipaðir í nefndina við fyrsta tækifæri.

Skoðunarmaður reikninga er Ottó Marwin Gunnarsson.

Ársskýrslu PSÍ fyrir 2022 má nálgast hér.

Og þeir sem eru sérlega áhugasamir geta nálgast upptöku af fundinum hér.