Egill vinnur PLO titilinn 2020

Síðbúið Íslandsmót í Pot-Limit-Omaha póker fyrir mótaárið 2020 var haldið í gær í sal Poker Express í Kópavogi. Alls tóku 20 manns þátt í mótinu og voru að auki 9 re-entry í mótið og er það 38% fjölgun frá fyrra ári.

Það var Egill Þorsteinsson sem stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa lagt Einar Eiríksson að velli heads-up. Egill skipar sér óneitanlega í flokk eins af okkar sterkustu spilurum með þessum árangri en hann varð m.a. í öðru sæti á Íslandsmótinu í póker (NLH) 2019 auk þess að hafa náð góðum árangri á fleiri mótum. Þess má til gamans geta að Einar Eiríksson ákvað að taka þátt á síðustu stundu og keypti sig inn þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af skráningarfrestinum.

Mótsstjóri var Einar Þór Einarsson og gjafarar voru Sigurlín (Silla) Gústafsdóttir, Alexander Sveinbjörnsson og Kristján Valsson.

Verðlaunafé á mótinu var alls 1.015.000 og var kostnaðarhlutfall 12,5%. Verðlaunaféð skiptist á milli 5 efstu spilara með eftirfarandi hætti:

 1. Egill Þorsteinsson, 355.000
 2. Einar Eiríksson, 264.000
 3. Sævar Ingi Sævarsson, 183.000
 4. Gunnar Árnason, 122.000
 5. Halldór Már Sverrisson, 91.000

Við óskum Agli til hamingju með titilinn og þökkum öllum þátttakendum fyrir gott mót og starfsólki mótsins fyrir vel unnin störf!

Gunnar Árnason er PLO meistarinn 2019

Íslandsmótinu í Pot-Limit-Omaha lauk um miðnættið í gærkvöldi. Það var Gunnar Árnason sem bar sigur úr býtum eftir mikla baráttu við Guðjón Heiðar Valgarðsson sem endaði í öðru sæti.  Þegar þeir voru tveir eftir hafði Guðjón yfirgnæfandi forystu með 20x stærri stakk, 800k á móti 40k, en Gunnar náði að saxa á forskotið og hafði að lokum betur.  Hér að neðan má sjá röð efstu manna og verðlaunafé:

 1. Gunnar Àrnason, kr. 228.000
 2. Guðjón Heiðar Valgarðsson, kr. 185.000
 3. Hafþór Sigmundsson, kr. 96.000
 4. Kjartan Fridriksson, kr. 58.000
 5. Már Wardum
 6. Einar Eiríksson
 7. Halldór Sverrisson
 8. Óskar Kemp

Við óskum Gunnari til hamingju með sigurinn og titilinn Íslandsmeistari í PLO 2019!

Upphaflegt verðlaunafé var 260.000 fyrir 1.sæti og 153.000 fyrir annað sæti en Gunnar og Guðjón gerðu með sér samning þegar þeir voru tveir eftir um ofangreinda skiptingu.

Heildarfjöldi þátttakenda var 16 og keyptu 5 þeirra sig tvisvar inn þannig að alls voru 21 entry í mótið, en boðið var upp á eitt re-entry fyrstu 6 levelin.

Heildar verðlaunafé var 567.000 en gerð var undanþága skv. nýju ákvæði í reglugerð um mótahald á vegum PSÍ þannig að hlutfall sem fór í verðlaunafé var fest í 27.000 af hverju 30.000 þátttökugjaldi.

Mótsstjóri var Einar Þór Einarsson og gjafarar voru Rannveig Eriksen og Alexander Sveinbjörnsson.  Við þökkum þeim fyrir vel unnin störf á mótinu og einnig Hugaríþróttafélaginu fyrir samstarfið en félagið lagði til húsnæði fyrir mótið.

Íslandsmótið í PLO verður 7.september!

Íslandsmótið í PLO verður fyrsta mótið á haustdagskránni hjá PSÍ.  Mótið fer fram laugardaginn 7.september og er það viku fyrr en áður hafði verið gefið út í mótadagskrá ársins.  Mótið hefst kl. 14:00 og fer fram í sal Hugaríþróttafélagsins í Síðumúla.

Þátttökugjald er kr. 30.000 (27k+3k) og verður að þessu sinni boðið upp á eitt re-entry.  Skráningarfrestur og frestur til að kaupa sig inn aftur rennur út eftir level 6.  Strúktúr mótsins má sjá hér að neðan.

Gerð hefur verið breyting á grein 7 í reglugerð um mótahald á vegum PSÍ þannig að heimilt sé að festa það hlutfall þátttökugjalds sem fer í að mæta kostnaði á smærri mótum.  Stjórn PSÍ hefur því ákveðið að festa það hlutfall á þessu móti þannig að af 30.000 kr. þátttökugjaldi og re-entry gjaldi fara 27.000 í verðlaunafé.