Landsliðið okkar á HM í Makedóníu
Úrslitakeppni International Federation of Match Poker (IMFP) fer fram í næstu viku í Makedóníu. Landslið okkar vann öruggan sigur í sínum riðli í undankeppni sem fram fór í júní 2021 og tryggði sér þannig sæti í úrslitakeppninni ásamt 14 öðrum þjóðum.
Vorið 2021 var valinn 10 manna landsliðshópur og fara 7 þeirra utan ásamt formanni PSÍ, Má Wardum, sem fer með sem fararstjóri og team manager. Þau sem keppa fyrir Íslands hönd í Makedóníu eru:
- Egill Þorsteinsson
- Einar Þór Einarsson
- Garðar Geir Hauksson
- Gunnar Árnason
- Halldór Már Sverrisson
- Kristjana Guðjónsdóttir
- Már Wardum
- Sævar Ingi Sævarsson
Auk þeirra eru í landsliðshópnum Daníel Pétur Axelsson, Inga Guðbjartsdóttir og Magnús Valur Böðvarsson en þau gátu ekki tekið þátt í þessu verkefni.
Við óskum okkar fólki góðs gengis á mótinu og fylgjumst spennt með á Twitch rás IFMP en þar verður hægt að fylgjast með gangi mála.
Áfram Ísland!!!
—— Uppfært 26.maí ——-
Landslið okkar í keppnispóker (match poker) lauk keppni í 10. sæti í gær, á degi 2, og komst því ekki í hóp þeirra 6 sem leika til úrslita í á lokadegi mótsins í dag.
14 lið tóku þátt í úrslitakeppni IFMP (Nations Cup 2021) að þessu sinni og fóru öll liðin áfram yfir á dag tvö en á þeim degi féllu 4 lið úr keppni á fyrri hluta dagsins og síðan önnur 4 lið á síðari hluta dagsins.
Liðið okkar átti því miður brösótta byrjun á degi 1 og byrjaði dag 2 í 12.sæti. Okkar fólk átti síðan góða byrjun á degi 2 og tókst að hífa liðið upp í 9. sæti og komast þannig í gegnum fyrri niðurskurðinn en góður árangur á degi 2 dugði ekki til og íslenska liðið endaði daginn 10.sæti.
Við erum að sjálfsögðu stolt af okkar fólki og vonum að reynslan af þessu móti verði gott veganesti inn í næsta mót!