Egill er Stórbokki 2023

Það var Egill Þorsteinsson sem vann sigur á Stórbokkanum í ár eftir stutta og snarpa heads-up viðureign við Halldór Má Sverrisson sem varð í öðru sæti. Egill hafði fallið úr leik skömmu fyrir hlé og keypti sig aftur inn í matarhléinu og náði jafnt og þétt að byggja upp góðan stakk. Halldór Már fór gríðarlega vel af stað í mótinu og var með gott chip-lead allan daginn og vel inn á lokaborðið en þegar 4 voru eftir fór Egill jafnt og þétt að saxa á forskotið.

Það er óhætt að segja að bæði Egill og Halldór Már séu með þessu búnir að stimpla sig enn betur inn sem okkar fremstu leikmenn, en Egill hefur áður náð Íslandsmeistaratitli í PLO auk þess sem hann varð í öðru sæti á ÍM í póker árið 2019. Halldór már hefur nokkrum sinnum komist á lokaborð á ÍM auk þess sem hann hefur líkt og Egill unnið PLO titilinn, bæði live og online og er nýbakaður Smábokki í ár þar að auki.

Alls tóku 22 þátt í mótinu og voru re-entry 11 talsins þannig að heildarfjöldi skráninga (entries) í mótið voru 33. Heildarinnkoma var 4.620.000 og var heildarkostnaður við mótið 620.000 (13,4%) þannig að verðlaunaféð endaði í sléttum 4 milljónum og skiptist á milli 5 efstu sem hér segir:

  1. Egill Þorsteinsson, 1.400.000
  2. Halldór Már Sverrisson, 1.000.000
  3. Þórarinn Kristjánsson Ólafsson, 720.000
  4. Jón Ingi Þorvaldsson, 520.000
  5. Jakub Jakubowksi, 360.000

Mótið var haldið í salarkynnum Poker Express og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að hýsa mótið. Í matarhléi var það Veislan sem bar fram 3ja rétta máltíð fyrir þátttakendur og starfsfólk og var ekki annað að heyra en að rífandi ánægja hafi verið með matinn.

Einar Þór, ritari PSÍ, stóð vaktina sem mótsstjóri með glæsibrag og Alexander, Dísa og Bjarni Veigar sáu um gjafarastörfin af einstakri fagmennsku. Það var síðan Jón Ingi, gjaldkeri PSÍ, sem bar hitann og þungann af undirbúningi og skipulagi mótsins.

Við þökkum öllum sem komu að Stórbokka þetta árið, starfsfólki, þátttakendum og gestgjöfum fyrir að gera gott mót með okkur og sjáumst sem flest á næsta móti!