Haustdagskrá PSÍ

Það er búið að vera erfitt að reyna að sjá í gegnum Covid-þokuna undanfarna mánuði og átta okkur á því hvaða starfsemi við getum haldið úti við þessar aðstæður sem uppi hafa verið. Við höfum því legið undir feldi og haldið að okkur höndum frá því í vor í þeirri von að línur myndu skýrast eitthvað þegar nær liði haustinu.

Og nú í vikunni kom stjórn PSÍ loks saman og réði ráðum sínum varðandi haustdagskrána og tók eftirfarandi ákvarðanir:

 • ÍM verður haldið skv. áður auglýstri dagskrá, síðustu helgina í október, að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að reglur um sóttvarnir og aðrar aðstæður leyfi.
 • Stórbokki verður felldur niður þetta árið.
 • ÍM í PLO verður haldið laugardaginn 14. nóvember, með sömu fyrirvörum og áður er getið.
 • Síðan endum við árið með sérstöku boðsmóti fyrir gjafara og starfsfólk móta undanfarinna missera, annað hvort laugardaginn 21.nóv eða 28.nóv, eftir því hvor dagsetningin hentar betur.
 • Dagskrá net-móta verður óbreytt í lok nóvember og byrjun desember.

Stefnt er að því að koma undanmótum fyrir ÍM af stað á Coolbet í komandi viku. Ef svo færi að ÍM yrði á endanum aflýst verða þeir miðar sem vinnast á Coolbet greiddir út í inneign þar. Einnig vonumst við til að geta komið af stað live undanmótum í samstarfi við pókerklúbba sem fyrst líka. Og það sama gildir þar að ef ÍM verður ekki haldið þá verða slíkir miðar greiddir til baka í nóvember.

Við vonum að félagsmenn sýni því raski sem orðið hefur á starfsemi PSÍ á árinu skilning og einnig ef þörf mun verða á frekari breytingum á dagskrá það sem eftir lifir ársins.

Sjá uppfærða mótadagskrá hér.

Frá fundi með gjöfurum

Eitt helsta átaksverkefni ársins verður að virkja fleiri til að taka þátt í störfum gjafara. Og til að hrinda því átaki af stað byrjuðum við árið á að halda fund með þeim gjöfurum sem voru tilbúnir til að taka þá í smá hugarflugi með okkur um málið.

Ýmsar góðar hugmyndir komu upp á fundinum, meðal annars:

 • Virkja fleiri spilara til að taka þátt í að díla á stóru mótunum. T.d. vana spilara sem ekki taka þátt og eins þá sem detta út úr mótinu.
 • Halda mót þar sem spilarar taka við að gefa þegar þeir falla úr leik og þar til næsti fellur úr leik til þess að fleiri æfist í því.
 • Halda gjafaramót, keppa um titilinn “Gjafarameistari PSÍ”, jafnvel spurning um að gera það í staðinn fyrir fyrirhugað kvennamót í lok ágúst. Stjórnarmeðlimir sjá um gjafarastarfið
 • Sjá til þess að það séu góðir stólar. Reyna að semja við einhverja húsgagnaverslun um að fá lánaða stóla á næsta ÍM gegn auglýsingu.
 • Sjá til þess að það sé gott aðgengi að vatni og kaffi á meðan á móti stendur og matur með reglulegu millibili
 • Hafa gjafara fund hálftíma til klukkutíma fyrir næsta ÍM, til að stilla saman strengi, fara yfir skipulag mótsins og smá fræðslu og hrista hópinn saman. – Þeir sem mæti á fundinn og díla amk. heilan dag á ÍM fara í pott sem dregið er úr eftir mótið, t.d. gjafakort á veitingastað, í Laugar, eða eitthvað slíkt.
 • Kynna mótin með góðum fyrirvara – minna reglulega á næstu mót inni í gjafaragrúppunni.
 • Vantar fleiri tækifæri til að gefa PLO – Már ræðir við Hugar um að halda PLO mót einu sinni í mánuði.
 • Rætt var um að gefa þyrfti fleirum kost á að díla á lokaborði ÍM
 • Halda þarf betur utan um tíma gjafara á stóru mótunum. Mætti t.d. prófa að nota eitthvert app til þess.

Einnig voru kynntar hugmyndir að nýjum strúktúr fyrir greiðslur fyrir störf gjafara á mótum á vegum PSÍ.  Þessar hugmyndir mæltust vel fyrir og var ákveðið í framhaldi að þær tækju gildi þegar í stað en þessar hugmyndir ganga einkum út á að ná fram þremur markmiðum:

 • Að umbuna þeim sérstaklega sem hafa meiri starfsreynslu.
 • Hvetja fleiri til þess að taka meiri þátt í starfi PSÍ.
 • Hvetja gjafara til að sækja fræðslu um reglur sem gilda á mótum og um hlutverk gjafara.
Greiðslur til gjafara hafa á síðustu þremur árum hækkað úr 1.500 kr./klst upp í 2.500 kr./klst og með breytingunum núna gefum við reyndari gjöfurum kost á að hífa það upp í 3000-3500 kr./klst.
Fyrirkomulagið verður sem hér segir:
Grunngjald á tímann verður kr. 2.000.
Síðan verður gefinn kostur á að hækka það í eftirfarandi 6 þrepum (2 þrep fyrir hvert af meginmarkmiðunum hér að ofan):
 • +250 kr. fyrir 1 árs starfsreynslu á pókerklúbbum
 • +250 kr. fyrir 2 ára starfsreynslu á pókerklúbbum
 • +250 kr. fyrir +50 klst. starf fyrir PSÍ (miðað við gögn aftur til 2018)
 • +250 kr. fyrir +100 klst. starf fyrir PSÍ
 • +250 kr. fyrir að hafa sótt fræðslufund á vegum PSÍ á síðustu 2 árum
 • +250 kr. fyrir að afla sér TDA vottunar (gildir í 2 ár).
Dæmi:
 • Gjafari með 3ja ára starfsreynslu sem kæmi til starfa í fyrsta sinn á móti fyrir PSÍ fengi kr. 2.500 á tímann.
 • Gjafari með 5 ára reynslu, 75 klst vinnu fyrir PSÍ og hefur sótt fræðslufund síðustu tvö ár fengi kr. 3.000 á tímann.
 • Gjafari sem tikkar í öll boxin hér að ofan fengi greitt kr. 3.500 á tímann.
Í lok fundarins var síðan farið í smá fræðslu um mótareglur og hlutverk gjafara og er það metið til hækkunar á greiðslum til gjafara skv. hinu nýja fyrirkomulagi.
Við vonumst að þetta mælist vel fyrir og muni virkja hvetjandi fyrir alla sem taka þátt í þessum verkefnum með okkur!
Einnig hvetjum við alla sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum næstu missera með okkur að skrá sig í þessa grúppu hér á Facebook.

Niðurstöður könnunar

Stjórn PSÍ gerði nýverið könnun á viðhorfi félagsmanna gagnvart starfsemi sambandsins á árinu 2019 og þeim mótum sem haldin voru á árinu.

M.a. var stuðst við niðurstöður könnunarinnar við ákvörðun um að bæta tveimur nýjum mótaröðum inn á mótadagskrána fyrir 2020 og ákvörðun um þátttökugjöld í þeim.

Einnig var spurt um hvað félagsmenn væru ánægðir með í starfseminni og hvað betur mætti fara.

Almennt ríkir mikil ánægja með störf stjórnar PSÍ á liðnu ári og má hér sjá nokkur dæmi um ummæli úr könnuninni:

 • “Þið eruð að gera flotta hluti”
 • “Flott stjórn, gerandi góða hluti”
 • “Jákvæð uppbyggingu frá ykkur, allt í rétta átt”
 • “Ánægður með alla vinnu sem þið skilið vel af ykkur”
 • “Flott utanumhald og virkari á samfélagsmiðlum”
 • “Stórkostleg stjórn og allt frábært !!! Takk fyrir !”
 • og fleira í þeim dúr.

Og það var líka bent á margt sem betur mætti fara og hér er samantekt á því helsta sem var ítrekað nefnt í því samhengi:

 • Gjafaramálin voru ofarlega baugi en margir nefndu það sem stærsta úrlausnarefni komandi árs enda kom það verulega niður á framkvæmd Íslandsmótsins 2019 hversu fáa tókst að fá í störf gjafara.  Þegar er komið af stað umbótaverkefni sem snýst um að þétta samstarfið við gjafarahópinn, bæta greiðslustrúktúr þannig að hann hann hvetji fleiri til starfa fyrir PSÍ og einnig að auka fræðslu fyrir gjafara til að auka hæfni þeirra. Ef vel tekst til þá er enginn vafi á að við verðum í annarri og betri stöðu þegar kemur að næsta Íslandsmóti.
 • Nokkrir sögðust ósáttir við “rake-stefnuna” eins og þeir orðuðu það. Árið 2018 var tekin upp sú stefna að öll mót skyldu rekin án hagnaðar eða taps enda var lítið til í sjóðum PSÍ og ekki svigrúm til að taka neina fjárhagslega áhættu.  Það gerði það að verkum að kostnaðarhlutfall varð frekar hátt á fámennum mótum, eins og PLO Íslandsmóti og Stórbokka (í kringum 20%) en hóflegt á Íslandsmóti (15%) og síðan reyndar mjög lágt á Smábokka (9,5%).  Í upphafi 2019 var tekin ákvörðun um að bregðast við óánægjuröddum sem komu fram í könnun sem gerð var í lok 2018 og var bætt inn ákvæði í reglugerð PSÍ um mótahald þannig að hægt væri að gera undanþágu frá þessu á mótum sem fyrirsjáanlegt væri að yrðu fámenn.  Í kjölfarið var kostnaðarhlutfall sett í fasta upphæð á bæði Stórbokka og PLO mótinu 2019 og virðast þeir sem enn lýsa yfir óánægju með “hátt rake” ekki gera sér grein fyrir þessari breytingu.  Við munum halda áfram á þeirri braut að reka stóru mótin á sléttu með hóflegu eða jafnvel mjög lágu kostnaðarhlutfalli og síðan reka smærri mótin með föstu hlutfalli, jafnvel þótt það geti þýtt smá tap af þeim mótum.
 • Kynningarmál, ímynd og tengsl við fjölmiðla var oft nefnt að þyrfti að bæta. Á undanförnu ári höfum við lagt mesta áherslu á það sem mætti kalla innra kynningarstarf, þ.e. að efla þann hóp sem stundar sportið og hvetja fleiri til þátttöku.  Það hefur gengið vel og hefur orðið fjölgun á öllum mótum jafnt og þétt undanfarin ár.  Það að fara í ytra kynningarstarf og auka sýnileika pókers á Íslandi er annað og stærra verkefni og höfum við ekki getað sett það í forgang.  Við köllum eftir áhugasömum einstaklingum sem hafa áhuga og drifkraft í að koma að kynningarmálum fyrir sambandið og hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að koma á aðalfundinn síðar í mánuðinum og taka þátt í umræðum um þetta og fleiri málefni þar.
 • Live feed/útsendingar frá mótum. Það geta allir verið sammála um að það væri til mikilla bóta að fá amk. video feed frá stærstu mótunum en hér strandar aftur á mannskap til þess að sjá um framkvæmdina.  Við köllum því enn og aftur eftir tæknisinnuðum og áhugasömum einstaklingum til að taka þetta að sér!
 • Nokkrir nefndu að það mætti hækka buy-in í mót, sér í lagi ÍM. Í mótadagskrá fyrir 2020 var tekinn sá póll í hæðina að hækka þátttökugjöld um ca. 25% yfir línuna, enda hefur t.d. þátttökugjald á ÍM lítið breyst í mörg ár.
 • Kynna betur og standa við dagsetningar á mótum. Þessu erum við að bæta úr núna með því að kynna mótadagskrá strax í fyrstu viku árs og kalla eftir athugasemdum um hana.
 • Og svo er það að lokum samstarfið við Coolbet sem margir áhugamenn um net-póker eru mis sáttir við. Staðan er einfaldlega svona:  Á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir til að ná samstarfi við nokkra af stærri aðilunum í þessum geira með misgóðum árangri.  Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að ná sambandi við Pokerstars, en án árangurs.  Í síðustu tilraunum hefur tölvupóstum frá okkur ekki einu sinni verið svarað og við höfum því gefist upp á að reyna að ná sambandi við PS.  Við erum í góðu sambandi við tengiliði hjá PartyPoker og höfum haldið eitt mót í samstarfi við þá, ÍM í net-póker 2018 og gekk það mjög vel. En þeir hafa á hinn bóginn lýst því yfir að þeir geti ekki keyrt fyrir okkur undanmót fyrir live mót hjá PSÍ, einungis undanmót fyrir mót sem eru rekin á þeirra kerfi, eins og t.d. ÍM í net-póker.  Samstarfið við PP hefur verið mjög þungt í vöfum og hefur þurft langan fyrirvara og mikinn eftirrekstur til að koma mótum í kring sem þeir eiga að halda fyrir okkur og jafnvel þótt leitað hafi verið eftir því að fá að halda ÍM í net-póker 2019 með meira en mánaðar fyrirvara brunnum við inni á tíma vegna seinagangs hjá PP og því var leitað til Coolbet sem brást eldsnöggt við. Í sumar hafði samband við okkur nýr aðili, Betkings, sem notast við GG kerfið/clientinn.  Við eyddum umtalsverðum tíma í að reyna að koma á samstarfi við þá fyrir haustið þ.a. við gætum keyrt undanmót fyrir ÍM 2019 þar.  Rétt áður en fyrsta undanmótið átti að fara af stað kom í ljós að lokað var fyrir greiðslur inn á kerfi þeirra fyrir öll Mastercard kort á Íslandi og því féll samstarf við þá um sjálft sig.Og þá víkur sögunni aftur að Coolbet.  Við fórum fyrst í samstarf við Coolbet í aðdraganda Íslandsmóts 2018 og síðan aftur vikurnar fyrir Smábokka 2019.  Það gekk svosum á ýmsu, bæði komu upp tæknileg vandamál og ýmislegt annað fór úrskeiðis í uppsetningu móta og voru ekki allir allskostar sáttir með viðmót forritsins heldur, þannig að á þeim tíma olli það skiljanlega smá titringi að við skyldum reiða okkur á Coolbet í þessum efnum.  Meðal annars þess vegna var þess freistað að ná samstarfi við Betkings til þess að prófa annan aðila. En þegar þreifingar um samstarf við Betkings fóru út um þúfur leituðum við aftur til Coolbet og brugðust þeir skjótt við og vildu allt fyrir okkur gera og hefur allt samstarf við þá gengið eins og í sögu núna í haust.  Einnig hafa verið gerðar ýmsar endurbætur á hugbúnaðinum sem þeir notast við (Microgaming) og hafa ekki komið upp neinir tæknilegir örðugleikar svo við vitum af á síðustu mánuðum.  Í ljósi alls þessa ákváðum við að halda áfram samstarfinu við Coolbet og efla það enn frekar, m.a. með samstarfi um mótaröð sem fer í gang 12. janúar og stendur fram í lok mars 2020.  Við vonum að þeir sem gáfust upp á Coolbet í upphafi gefi þeim annað tækifæri og taki þátt í Coolbet bikarnum því það er ekki hægt að segja annað en að Coolbet sé að gera einstaklega vel við okkur með þeirri mótaröð.

Við vonum að þessi langloka varpi ljósi á ýmis mál sem brunnið hafa á vörum félagsmanna og við vonum jafnframt að okkur takist að gera enn betur á árinu 2020!

 

Coolbet bikarinn hefst á sunnudag!

Fyrsta mótið í mótaröðinni Coolbet Bikarinn hefst á sunnudag kl. 20:00.  Þátttökugjald í hverju móti er €55 og er hvert mót fyrir sig leikið með freezout fyrirkomulagi, þ.e.a.s. ekki er hægt að kaupa sig inn aftur.
€50 fara beint í verðlaunafé rétt eins og í öðrum on-line mótum og síðan bætir Coolbet við glæsilegum vinningum í lokin til fjögurra stigahæstu spilaranna!
Sjá allar nánari upplýsingar um mótaröðina hér.

Undanmót kl. 18:00 á sunnudag!

Til að hita upp fyrir fyrsta mótið er tilvalið að skella sér í €5.50 re-buy undanmót til að næla sér í miða í fyrstu umferð Coolbet Bikarsins.  Hægt verður að kaupa sig tvöfalt inn auk þess sem add-on verður í boði þegar skráningarfresti lýkur.

Skráning í mótaröðina

Til að taka þátt í mótaröðinni þarf að skrá sig hér en það er, ásamt aðild að PSÍ, skilyrði fyrir þátttöku í stigakeppninni.  Aðrir geta tekið þátt í mótunum en þátttaka telur ekki til stiga fyrr en gengið hefur verið frá skráningu.

Ársþing PSÍ 2020

Ársþing Pókersambands Íslands 2020 verður haldið í Kornhlöðunni á veitingastaðnum Lækjarbrekku, sunnudaginn 26.janúar kl. 16:00.

Dagskrá verður skv. 6. grein laga sambandsins sem finna má hér á vef PSÍ.

Við hvetjum alla félasgmenn til þess að mæta hvort sem þið gefið kost á ykkur til starfa fyrir sambandið eður ei.

Lagðar verða fyrir þingið eftirfarandi lagabreytingar (viðbætur eru feitletraðar):

 1. Lagt er til að heiti 8.kafla laga PSÍ verði breytt í “8. kafli. Lagabreytingar og slit sambandsins.
 2. Lagt er til að nýrri grein verði bætt við lög PSÍ sem hljóðar svo:
  13. grein. – Tillaga um að leggja sambandið niður þarf að berast stjórn a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund og skal tillögunnar getið í fundarboði. Tillaga um að leggja sambandið niður telst aðeins samþykkt ef 3/4 atkvæðabærra fundarmana samþykkja tillöguna. Verði slík tillaga samþykkt skal boða til aukaaðalfundar innan 4 vikna til að staðfesta tillöguna og þarf jafnframt 3/4 atkvæðabærra fundarmanna þar til þess að staðfesta samþykki hennar. Verði sambandið lagt niður skulu eignir þess renna til verkefnisins “Frú Ragnheiður – Skaðaminnkun” á vegum Rauða Krossins í Reykjavík.
 3. Lagt er til að 9. grein laga PSÍ verði breytt í:  (viðbótarákvæði um að heimild til að hafna aðild og hins vegar lágmarksaldur).
  Til að teljast fullgildur meðlimur skal félagi hafa greitt árgjald til PSÍ á yfirstandandi ári. Þeir sem hafa greitt árgjald á undangengnu ári hafa atkvæðisrétt á ársþingi.
  Stjórn PSÍ áskilur sér rétt til þess að hafna aðild félaga sem á einhvern hátt hafa orðið uppvísir að agabrotum eða ósæmilegri hegðun á mótum á vegum PSÍ eða hjá aðildarfélögum/félögum sem PSÍ á í samstarfi við.
  Miða skal árgjöld við reikningsár sambandsins. Það er skilyrði fyrir þátttöku í mótum á vegum PSÍ, að viðkomandi félagi hafi greitt árgjald sitt til Pókersambandsins og hafi náð 18 ára aldri….…[restin er síðan eins] “.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Stjórnin.

 

Ný stjórn PSÍ

Ársþing PSÍ var haldið í dag, sunnudaginn 3.febrúar 2019, og fór það fram í Kornhlöðunni á veitingastaðnum Lækjarbrekku.

Ný stjórn sambandsins var kjörin á þinginu og skiptir hún þannig með sér verkum:

Már Wardum, formaður
Jón Ingi Þorvaldsson, gjaldkeri
Einar Þór Einarsson, ritari
Ingi Þór Einarsson, varamaður
Ívar Örn Böðvarsson, varamaður

Í mótanefnd voru kjörnir:

Ingi Þór Einarsson
Ívar Örn Böðvarsson
Viktor Lekve

Í laga- og leikreglnanefnd voru kjörnir:

Ottó Marwin Gunnarsson
Jón Ingi Þorvaldsson
Einar Þór Einarsson
Ívar Örn Böðvarsson

Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum, m.a. þess efnis að stjórnarmönnum var fækkað í 3 og 2 til vara, í stað 5 og enginn varamaður eins og það var áður.

Fundurinn var sendur beint út á facebook síðu PSÍ og má nálgast upptöku af fundinum hér.

Hér má nálgast ársskýrslu PSÍ fyrir 2018 ásamt ársreikningi, og hér eru þær lagabreytingatillögur sem samþykktar voru á þinginu.

Aðalfundur 2019

Aðalfundur Pókersambands Íslands 2019 verður haldinn í Kornhlöðunni á veitingastaðnum Lækjarbrekku, sunnudaginn 3.febrúar kl. 16:00.

Dagskrá verður skv. 6. grein laga sambandsins sem finna má hér á vef PSÍ.

Við hvetjum alla félasgmenn til þess að mæta á fundinn og gefa kost á sér í stjórn og nefndir eða í önnur verkefni á árinu.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Stjórnin.

 

Íslandsmótið í Omaha 2015 – Opið fyrir skráningu

Íslandsmótið í Omaha verður haldið á pókerklúbbnum Magma, Ármúla nú um næstu helgi. Mótið verður sett á laugardaginn kl 16:00 og verður spilað til þrautar þann daginn.

Þátttökugjald er 30.000 kr en af því fara 4.000 kr í mótsgjald og kostnað. Gjafarar verða á öllum borðum en að mestu sitja 6 spilarar við hvert borð.

Skráning fer fram hér 🙂

 

 

Bein lýsing: Íslandsmótið í póker 2015

 

 

Góðan daginn, Magnús Valur Böðvarsson heilsar frá Borgarnesi en hér fer fram bein textalýsing frá íslandsmótinu í póker.

13:50

Nú eru rétt rúmar þrjár klukkustundir í að Íslandsmótið í póker hefjist. Spilarar eru byrjaðir að koma einn og einn. Salurinn er orðinn klár og allt að verða tilbúið. Mótið hefst stundvíslega klukkan 17:00 og mælum við með að spilarar mæti með góðum fyrirvara.

[card]Ah[/card] [card]Kh[/card][card]Qh[/card][card]Jh[/card][card]Th[/card][card]9h[/card][card]8h[/card][card]7h[/card][card]6h[/card][card]5h[/card][card]4h[/card][card]3h[/card][card]2h[/card][card]As[/card][card]Ks[/card][card]Qs[/card][card]Js[/card][card]Ts[/card][card]9s[/card][card]8s[/card][card]7s[/card][card]6s[/card][card]5s[/card][card]4s[/card][card]3s[/card][card]2s[/card][card]Ad[/card][card]Kd[/card][card]Qd[/card][card]Jd[/card][card]Td[/card][card]9d[/card][card]8d[/card][card]7d[/card][card]6d[/card][card]5d[/card][card]4d[/card][card]3d[/card][card]2d[/card][card]Ac[/card][card]Kc[/card][card]Qc[card][/card][card]Jc[/card][card]Tc[/card][card]9c[/card][card]8c[/card][card]7c[/card][card]6c[/card][card]5c[/card][card]4c[/card][card]3c[/card][card]2c[/card]

14:21

Minnum að sjálfsögðu á twitter með hashtaginu #icechamp2015 og pokersambands snappið sem er pokersamband

 

14:31

Salurinn í Borgarnesi

islandsmot

15:45

Nú rétt rúm klukkustund í að mótið hefjist. KOMA SVO!!!!

17:00

Spilurum er að fara vera hleypt inn