Jón Ingi (Thorvaldz) er Íslandsmeistari í net-póker
Jón Ingi Þorvaldsson (Thorvaldz) vann sigur á Íslandsmótinu í net-póker sem fram fór á Coolbet nú í kvöld og lauk kl. 00:24. Jón Inga þekkja eflaust flestir betur í öðru hlutverki en hann hefur oftar verið í mótsstjórahlutverkinu í mótum á vegum PSÍ undanfarin ár heldur en við pókerborðið, og var m.a. mótsstjóri á nýafstöðnu Íslandsmóti í póker og einnig PLO Íslandsmótinu sem fram fór í september.
Hann hefur þó einnig aðeins stimplað sig inn á listann yfir sigurvegara í mótum á vegum PSÍ í gegnum tíðina, m.a. með sigri á Stórbokka árið 2017 og einnig í eina Bikarmótinu sem PSÍ hefur haldið árið 2020. Aðspurður segist Jón Ingi ekki mikið hafa spilað á netinu undanfarið, “ég hef verið mikið á ferðalögum erlendis undanfarin misseri og lítið náð að spila yfir höfuð, og síst á netinu. En ég tók þann pól í hæðina í þessu móti að spila mjög tight, jafnvel meira en ég er vanur. Eftir rúmlega hundrað fyrstu hendurnar í mótinu var ég t.d. með VPIP í kringum 10% og þegar leið á mótið sveiflaðist það á milli 15 og 18% sem er alveg í lægra lagi. En umfram allt spilaði ég bara alveg sérlega agað og það bar árangur.”
Jón Ingi kom inn á lokaborðið aðeins undir meðalstakk og náði síðan að halda stöðu sinni meira og minna í gegnum allt lokaborðið og síðan hægt og bítandi klóra sig upp listann. Þegar 5 voru eftir var hann kominn í annað sætið og þegar aðeins þrír voru eftir náði hann yfirburðastöðu og að lokum varð heads-up leikurinn mjög stuttur og snarpur.
Í öðru sæti varð Guðni Rúnar Ólafsson, sem netverjar þekkja betur sem GkiloGKILO og var hann með chip-lead þegar komið var inn á lokaborðið. Hann hafði verið í einu af efstu sætunum í gegnum allt mótið eftir að hafa strax í upphafi móts tvöfaldað sig með því að slá út “Höfðingjann”. Í því þriðja varð síðan Þórarinn Ólafsson Kristjánsson, betur þekktur á Coolbet sem Gollipolli. Þórarinn hefur verið að gera það gott á þessu ári en hann getur nú státað af því að hafa náð lokaborði á öllum Íslandsmótum það sem af er árinu, en hann varð í 9.sæti á nýafstöðnu Íslandsmóti í póker og í 4.sæti á ÍM í PLO í september.
Alls tók 51 þátt í mótinu sem er umtalsverð fjölgun frá því í fyrra (34), þátttökugjald var €200 og endaði verðlaunapotturinn í €9282 sem skiptist á milli 8 efstu á eftirfarandi hátt:
- Thorvaldz- €2970
- GkiloGKILO – €1949
- GolliPolli – €1392
- rudnar – €937
- flispeysupabbi – €705
- doctorfree888- €520
- galdrakall – €427
- dsaliente – €381
Við óskum Jóni Inga til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum félagsmönnum fyrir þátttökuna og þökkum Coolbet fyrir frábært samstarf við framkvæmd mótsins.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!