Steinar er Smábokki 2024!
Við þökkum félagsmönnum fyrir frábæra þátttöku í Smábokka sem lauk núna kl.21:00 í kvöld en aðsókn fór fram úr björtustu vonum mótshaldara. Alls tók 71 þátt í mótinu og voru endurkaup í mótið 34 talsins þannig að alls voru 105 entry í mótið. Þetta er mesta aðsókn á Smábokka síðan í fyrsta mótinu árið 2017 þegar 109 tóku þátt. Verðlaunaféð á Smábokka hefur hins vegar aldrei verið hærra eða samtals 2.680.000 sem skiptist á milli 11 efstu leikmanna. Kostnaðarhlutfall mótsins var slétt 15%.
Það var Steinar Edduson sem stóð uppi sem sigurvegari eftir vel rúmlega klukkustundar heads-up einvígi við Hannes Guðmundsson sem varð í öðru sæti. Steinar hóf dag tvö með rétt rúmlega tvöfaldan upphafsstakk, kom svo inn á lokaborðið með chip-lead og byrjaði heads-up leikinn með afgerandi forystu, eða 5faldan stakk Hannesar. Hannes náði síðan að saxa á forskotið og náði um tíma að jafna hann, en á endanum kom Steinar stakknum inn með AT á móti A7 og hafði betur.
Steinar er einn af okkar reyndari leikmönnum og lét talsvert til sín taka í íslenskri póker senu fyrir nokkrum árum og vann m.a. sigur á Stórbokka í annað sinn sem hann var haldinn árið 2016 eftir að hafa orðið í öðru sæti í sama móti árið áður. Steinar er síðan búinn að vera að sækja aftur í sig veðrið undanfarin misseri og er stefnan næst tekin á WSOP mótaröðina í sumar þar sem hann hyggst spila Main Eventið í fyrsta sinn. Steinar er sá þriðji sem tekst að vinna bæði Stórbokka og Smábokka, en áður hafa þeir Sveinn Rúnar Másson og Matte Bjarni Karjalainen afrekað það.
Már Wardum, formaður PSÍ, stóð í ströngu í mótsstjórninni en hin mikla aðsókn í mótið kom aðeins inn í hliðina á okkur og vorum við aðeins undirmönnuð á degi 1 fyrir vikið og á Már mikinn heiður skilinn fyrir að standast þetta álag. Við þökkum félagsmönnum þolinmæðina og þökkum sérstaklega þeim stóðu vaktina í gjafarahlutverkinu við erfiðar aðstæður, sér í lagi á degi 1 þar sem nánast allur gjafarahópurinn þurfti að gefa hvíldarlaust allt kvöldið. En það voru þau Alexander, Þórunn, Dísa, Bjarni, Edward, Korneliusz og Inga sem sáu um að þeyta spilunum með glæsibrag. Um skipulag mótsins og kynningarmál sá Jón Ingi, gjaldkeri PSÍ.
Þeir sem skiptu verðlaunasætunum með sér voru:
1 | Steinar Edduson | 700.000 |
2 | Hannes Guðmundsson | 500.000 |
3 | Johan Rolfsson | 380.000 |
4 | Ingólfur Lekve | 270.000 |
5 | Egill Þorsteinsson | 215.000 |
6 | Tomasz Janusz Mroz | 160.000 |
7 | Steinar Snær Sævarsson | 135.000 |
8 | William Thomas Möller | 95.000 |
9 | Ívar Örn Böðvarsson | 95.000 |
10 | Grétar Már Steindórsson | 65.000 |
11 | Kristján Bragi Valsson | 65.000 |
Við þökkum Hugaríþróttafélaginu kærlega fyrir samstarfið og fyrir að veita okkur aðgang að aðstöðu félagsins. Einnig þökkum við Coolbet fyrir að halda fyrir okkur undanmót eins og þeim einum er lagið en tíð undanmót vikurnar fyrir mótið voru tvímælalaust lykill að góðri þátttöku.
Að lokum óskum við Steinari til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að sjá félagsmenn á næsta móti, en Stórbokki er næstur á dagskrá þann 18.maí nk!
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!