Logi Laxdal er Íslandsmeistari í póker 2020

Síðbúnu Íslandsmóti fyrir mótatímabilið 2020 lauk kl. 20:15 á sunnudagskvöld og var það Logi Laxdal sem stóð uppi sem sigurvegari og er Íslandsmeistari í póker 2020. Lokaborðið hófst kl. 13:00 og hafði því staðið í u.þ.b. 7 klst. þegar yfir lauk og mótið í heild hafði á þeim tíma tekið rúmar 25 klst. frá upphafi en mótið hófst miðvikudaginn 3.mars. Logi kom inn í mótið eins seint og hægt var eða í upphafi dags 2 og hafði ákveðið á síðustu stundu að taka þátt. Það borgaði sig sannarlega, enda hlýtur Logi að launum 1,4mkr í verðlaunafé. Logi er gamalreyndur póker-spilari og var það reyndar mál manna að þetta hafi verið eitthvert mesta þungavigtar lokaborð í sögu Íslandsmóta hvað varðar aldur og reynslu leikmanna. Logi hefur náð góðum árangri á ýmsum mótum í gegnum tíðina og vann m.a. fyrsta Smábokkann, sem haldinn var árið 2017.

Gunnar Árnason varð í öðru sæti en hann hafði viku áður unnið til verðlauna á Íslandsmótinu í Pot-Limit-Omaha og varð einnig Íslandsmeistari í PLO árið 2019. Í þriðja sæti varð síðan Halldór Már Sverrisson og er þetta í þriðja sinn sem hann kemst á lokaborð, þar af annað árið í röð.

Heildarfjöldi þátttakenda á mótinu var 96 og var verðlaunafé 6.170.000 sem skiptist á milli 15 efstu manna sem hér segir:

  1. Logi Laxdal – 1.400.000
  2. Gunnar Árnason – 1.000.000
  3. Halldór Már Sverrisson – 750.000
  4. Wilhelm Nordfjord – 600.000
  5. Jónas Nordquist – 480.000
  6. Vignir Már Runólfsson – 400.000
  7. Óskar Þór Jónsson – 320.000
  8. Andrés Vilhjálmsson – 250.000
  9. Sævaldur Harðarson – 190.000
  10. Egill Þorsteinsson – 145.000
  11. Ingó Lekve – 145.000
  12. Davíð Rúnarsson – 130.000
  13. Júlíus Pálsson – 130.000
  14. Inga Guðbjartsdóttir (Poko) – 115.000
  15. Jónas Tryggvi Stefánsson – 115.000

Það var síðan Davíð Ómar Sigurbergsson sem vermdi búbblusætið og hlýtur að launum miða á næsta Íslandsmót, sem ráðgert er í byrjun nóvember 2021.

Framkvæmd mótsins tókst einkar vel og var umgjörð mótsins öll hin glæsilegasta. Mótið var haldið í samstarfi við Póker Express sem lét PSÍ í té húsnæði sitt að Nýbýlavegi 8 og eiga þeir bestu þakkir skildar fyrir. Aftur var tekinn upp sá siður að hafa textalýsingu frá mótinu en Magnús Valur Böðvarsson leysti það af sinni alkunnu snilld á degi 2. Einnig var glæsileg sjónvarpsútsending frá lokaborði mótsins í umsjá GoLine Productions og segja má að með þessari útsendingu sé brotið blað í sögu Íslandsmóta í póker enda hefur lokaborði ekki verið jafn góð skil áður. Upptakan af lokaborðinu er aðgengileg á Youtube á þessari slóð hér. Við viljum að venju þakka Hugaríþróttafélaginu og Póker Express fyrir góða röð undanmóta og Coolbet fyrir öll sín net-undanmót! Og að lokum fá Dominos Pizza bestu þakkir fyrir að fóðra starfsfólk mótsins alla helgina!

Þetta er í fyrsta sinn, svo vitað sé, að fyrsti dagur Íslandsmótsins sé leikinn í tvennu lagi, en fyrst í stað stóð til að halda hann í þrennu lagi vegna samkomutakmarkana. Þegar þær voru rýmkaðar í byrjun febrúar var unnt að fækka keppnisdögunum niður í tvo. Þetta fyrirkomulag reyndist einkar vel og þótt að það reyndi meira á skipulag og undirbúning þá var framkvæmd mótsins viðráðanlegri fyrir vikið. Árið 2019 kom upp sú óheppilega staða að ekki var nægt framboð af gjöfurum til að starfa við mótið og segja má að það sé í raun orðið óhjákvæmilegt að skipta degi 1 upp í tvennt ef það á að tryggja að gjafarar séu tiltækir á öll borð.

Samhliða lokaborðinu var einnig haldið hliðarmót með 20k þátttökugjaldi og var það Þór Þormar sem stóð upp sem sigurvegari þar.

Mótsstjóri var Jón Ingi Þorvaldsson og ritari mótsins og meðdómari var Viktor Lekve.

Við óskum Loga Laxdal til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og öðrum verðlaunahöfum til hamingju með glæsilegan árangur! Við þökkum Poker Express fyrir frábært samstarf í undirbúningi og framkvæmd mótsins og Dominos fyrir að fóðra starfsfólk mótsins alla helgina!

Nú kveðjum við loks mótaárið 2020 með kurt og pí og hefjum nýtt mótatímabil að viku liðinni.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply