Róbert tekur Íslandsmeistaratitilinn í PLO 2022
Íslandsmótinu í Pot-Limit-Omaha lauk um kl. 2 í nótt með sigri Róberts Gíslasonar. Í öðru sæti varð Jón Gauti Árnason og í því þriðja varð Stefán Hjalti Garðarsson. Mótið hófst klukkan 14:00 og fór fram í nýjum glæsilegum salarkynnum Hugaríþróttafélagsins í Mörkinni. Þátttakendur voru 22 talsins og keyptu 9 þeirra sig inn aftur en eitt re-entry er leyft í þessu móti. Alls voru því 31 entry í mótið. Kostnaðarhlutfall var 15% og var verðlaunafé því 1.055.000 og skiptist það á milli 5 efstu með eftirfarandi hætti:
- Róbert Gíslason, 380.000
- Jón Gauti Árnason, 275.000
- Stefán Hjalti Garðarsson, 190.000
- Kristján Bragi Valsson, 125.000
- Grétar Már Steindórsson, 85.000
Lokaborðið var skipað 7 síðustu leikmönnum eins og reglur gera ráð fyrir og auk verðlaunahafanna þá komust einnig á lokaborð þeir Hafþór Sigmundsson sem endaði í 6.sæti og Haukur Einarsson í 7.sæti. Hart var tekist á þegar 6 voru eftir, eða “á búbblunni” og tók 2 og hálfan tíma að sprengja búbbluna.
Mótsstjóri var Daníel Jóhannsson sem þreytti frumraun sína í mótsstjórn fyrir PSÍ með glæsibrag og í störfum gjafara var úrvalslið Omaha gjafara, þau Alexander, Silla og Rannveig.
Við óskum Róberti til hamingju með sigurinn, þann fyrsta í móti á vegum PSÍ, og öllum verðlaunahöfum einnig til hamingju með glæsilegan árangur. Við þökkum Hugaríþróttafélaginu fyrir að útvega þessa frábæru aðstöðu fyrir mótið og öllum sem komu að skipulagi og framkvæmd mótsins fyrir vel unnin störf!
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!