Niðurstöður könnunar

Stjórn PSÍ gerði nýverið könnun á viðhorfi félagsmanna gagnvart starfsemi sambandsins á árinu 2019 og þeim mótum sem haldin voru á árinu.

M.a. var stuðst við niðurstöður könnunarinnar við ákvörðun um að bæta tveimur nýjum mótaröðum inn á mótadagskrána fyrir 2020 og ákvörðun um þátttökugjöld í þeim.

Einnig var spurt um hvað félagsmenn væru ánægðir með í starfseminni og hvað betur mætti fara.

Almennt ríkir mikil ánægja með störf stjórnar PSÍ á liðnu ári og má hér sjá nokkur dæmi um ummæli úr könnuninni:

  • “Þið eruð að gera flotta hluti”
  • “Flott stjórn, gerandi góða hluti”
  • “Jákvæð uppbyggingu frá ykkur, allt í rétta átt”
  • “Ánægður með alla vinnu sem þið skilið vel af ykkur”
  • “Flott utanumhald og virkari á samfélagsmiðlum”
  • “Stórkostleg stjórn og allt frábært !!! Takk fyrir !”
  • og fleira í þeim dúr.

Og það var líka bent á margt sem betur mætti fara og hér er samantekt á því helsta sem var ítrekað nefnt í því samhengi:

  • Gjafaramálin voru ofarlega baugi en margir nefndu það sem stærsta úrlausnarefni komandi árs enda kom það verulega niður á framkvæmd Íslandsmótsins 2019 hversu fáa tókst að fá í störf gjafara.  Þegar er komið af stað umbótaverkefni sem snýst um að þétta samstarfið við gjafarahópinn, bæta greiðslustrúktúr þannig að hann hann hvetji fleiri til starfa fyrir PSÍ og einnig að auka fræðslu fyrir gjafara til að auka hæfni þeirra. Ef vel tekst til þá er enginn vafi á að við verðum í annarri og betri stöðu þegar kemur að næsta Íslandsmóti.
  • Nokkrir sögðust ósáttir við “rake-stefnuna” eins og þeir orðuðu það. Árið 2018 var tekin upp sú stefna að öll mót skyldu rekin án hagnaðar eða taps enda var lítið til í sjóðum PSÍ og ekki svigrúm til að taka neina fjárhagslega áhættu.  Það gerði það að verkum að kostnaðarhlutfall varð frekar hátt á fámennum mótum, eins og PLO Íslandsmóti og Stórbokka (í kringum 20%) en hóflegt á Íslandsmóti (15%) og síðan reyndar mjög lágt á Smábokka (9,5%).  Í upphafi 2019 var tekin ákvörðun um að bregðast við óánægjuröddum sem komu fram í könnun sem gerð var í lok 2018 og var bætt inn ákvæði í reglugerð PSÍ um mótahald þannig að hægt væri að gera undanþágu frá þessu á mótum sem fyrirsjáanlegt væri að yrðu fámenn.  Í kjölfarið var kostnaðarhlutfall sett í fasta upphæð á bæði Stórbokka og PLO mótinu 2019 og virðast þeir sem enn lýsa yfir óánægju með “hátt rake” ekki gera sér grein fyrir þessari breytingu.  Við munum halda áfram á þeirri braut að reka stóru mótin á sléttu með hóflegu eða jafnvel mjög lágu kostnaðarhlutfalli og síðan reka smærri mótin með föstu hlutfalli, jafnvel þótt það geti þýtt smá tap af þeim mótum.
  • Kynningarmál, ímynd og tengsl við fjölmiðla var oft nefnt að þyrfti að bæta. Á undanförnu ári höfum við lagt mesta áherslu á það sem mætti kalla innra kynningarstarf, þ.e. að efla þann hóp sem stundar sportið og hvetja fleiri til þátttöku.  Það hefur gengið vel og hefur orðið fjölgun á öllum mótum jafnt og þétt undanfarin ár.  Það að fara í ytra kynningarstarf og auka sýnileika pókers á Íslandi er annað og stærra verkefni og höfum við ekki getað sett það í forgang.  Við köllum eftir áhugasömum einstaklingum sem hafa áhuga og drifkraft í að koma að kynningarmálum fyrir sambandið og hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að koma á aðalfundinn síðar í mánuðinum og taka þátt í umræðum um þetta og fleiri málefni þar.
  • Live feed/útsendingar frá mótum. Það geta allir verið sammála um að það væri til mikilla bóta að fá amk. video feed frá stærstu mótunum en hér strandar aftur á mannskap til þess að sjá um framkvæmdina.  Við köllum því enn og aftur eftir tæknisinnuðum og áhugasömum einstaklingum til að taka þetta að sér!
  • Nokkrir nefndu að það mætti hækka buy-in í mót, sér í lagi ÍM. Í mótadagskrá fyrir 2020 var tekinn sá póll í hæðina að hækka þátttökugjöld um ca. 25% yfir línuna, enda hefur t.d. þátttökugjald á ÍM lítið breyst í mörg ár.
  • Kynna betur og standa við dagsetningar á mótum. Þessu erum við að bæta úr núna með því að kynna mótadagskrá strax í fyrstu viku árs og kalla eftir athugasemdum um hana.
  • Og svo er það að lokum samstarfið við Coolbet sem margir áhugamenn um net-póker eru mis sáttir við. Staðan er einfaldlega svona:  Á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir til að ná samstarfi við nokkra af stærri aðilunum í þessum geira með misgóðum árangri.  Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að ná sambandi við Pokerstars, en án árangurs.  Í síðustu tilraunum hefur tölvupóstum frá okkur ekki einu sinni verið svarað og við höfum því gefist upp á að reyna að ná sambandi við PS.  Við erum í góðu sambandi við tengiliði hjá PartyPoker og höfum haldið eitt mót í samstarfi við þá, ÍM í net-póker 2018 og gekk það mjög vel. En þeir hafa á hinn bóginn lýst því yfir að þeir geti ekki keyrt fyrir okkur undanmót fyrir live mót hjá PSÍ, einungis undanmót fyrir mót sem eru rekin á þeirra kerfi, eins og t.d. ÍM í net-póker.  Samstarfið við PP hefur verið mjög þungt í vöfum og hefur þurft langan fyrirvara og mikinn eftirrekstur til að koma mótum í kring sem þeir eiga að halda fyrir okkur og jafnvel þótt leitað hafi verið eftir því að fá að halda ÍM í net-póker 2019 með meira en mánaðar fyrirvara brunnum við inni á tíma vegna seinagangs hjá PP og því var leitað til Coolbet sem brást eldsnöggt við. Í sumar hafði samband við okkur nýr aðili, Betkings, sem notast við GG kerfið/clientinn.  Við eyddum umtalsverðum tíma í að reyna að koma á samstarfi við þá fyrir haustið þ.a. við gætum keyrt undanmót fyrir ÍM 2019 þar.  Rétt áður en fyrsta undanmótið átti að fara af stað kom í ljós að lokað var fyrir greiðslur inn á kerfi þeirra fyrir öll Mastercard kort á Íslandi og því féll samstarf við þá um sjálft sig.Og þá víkur sögunni aftur að Coolbet.  Við fórum fyrst í samstarf við Coolbet í aðdraganda Íslandsmóts 2018 og síðan aftur vikurnar fyrir Smábokka 2019.  Það gekk svosum á ýmsu, bæði komu upp tæknileg vandamál og ýmislegt annað fór úrskeiðis í uppsetningu móta og voru ekki allir allskostar sáttir með viðmót forritsins heldur, þannig að á þeim tíma olli það skiljanlega smá titringi að við skyldum reiða okkur á Coolbet í þessum efnum.  Meðal annars þess vegna var þess freistað að ná samstarfi við Betkings til þess að prófa annan aðila. En þegar þreifingar um samstarf við Betkings fóru út um þúfur leituðum við aftur til Coolbet og brugðust þeir skjótt við og vildu allt fyrir okkur gera og hefur allt samstarf við þá gengið eins og í sögu núna í haust.  Einnig hafa verið gerðar ýmsar endurbætur á hugbúnaðinum sem þeir notast við (Microgaming) og hafa ekki komið upp neinir tæknilegir örðugleikar svo við vitum af á síðustu mánuðum.  Í ljósi alls þessa ákváðum við að halda áfram samstarfinu við Coolbet og efla það enn frekar, m.a. með samstarfi um mótaröð sem fer í gang 12. janúar og stendur fram í lok mars 2020.  Við vonum að þeir sem gáfust upp á Coolbet í upphafi gefi þeim annað tækifæri og taki þátt í Coolbet bikarnum því það er ekki hægt að segja annað en að Coolbet sé að gera einstaklega vel við okkur með þeirri mótaröð.

Við vonum að þessi langloka varpi ljósi á ýmis mál sem brunnið hafa á vörum félagsmanna og við vonum jafnframt að okkur takist að gera enn betur á árinu 2020!

 

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply