Hafþór er Íslandsmeistari í póker 2024
Íslandsmótinu í póker lauk kl. 20:08 í kvöld með sigri Hafþórs Sigmundssonar eftir nokkuð langa heads-up viðureign við Óla Björn Karlsson. Í þriðja sæti varð Andrés Vilhjálmsson. Það er skemmtileg tilviljun að þeir þrír skipuðu efstu þrjú sætin eftir dag eitt, en Hafþór kom síðan inn á dag 3 með minnsta stakkinn og náði að vinna hann upp jafnt og þétt allan daginn.
Heildarfjöldi þátttakenda var 125 og er það mesti fjöldi þátttakenda síðan 2015. Degi 1 var skipt í tvennt og tóku 66 þátt í degi 1a og 59 á degi 1b og komust samtals 69 þeirra á dag 2. Á degi 2 var leikið til miðnættis en búið var að ákveða að stöðva leik á miðnætti eða þegar komið væri niður í lokaborð og aðeins 9 eftir. Á miðnætti stóðu 10 eftir og höfðu þá leikið í meira en hálfa klukkustund hand-for-hand og var þá staðar numið og hófu þessir 10 leik á sunnudeginum. Það tók rétt rúma klukkustund að komast niður í 9 manna hópinn sem skipaði lokaborðið 2024. Það tók síðan tæpar 6 klukkustundir að leika mótið til þrautar þar til sigurvegarinn stóð einn eftir.
Þetta var í fyrsta skipti sem mótið var kynnt lítillega í alþjóðlegum grúppum pókeráhugamanna, m.a. í grúppu þeirra sem flakka um heiminn til þess að safna flöggum á Hendon Mob vefnum, eða svokölluðum “Flaghunters”. Á endanum komu 4 slíkir frá fjórum mismunandi löndum og þeirra á meðal var Lars Jurgens sem kemst nú í efsta sæti á þeim lista en hann hefur unnið til verðlauna á pókermótum í samtals 51 landi. Auk þess komu þrír leikmenn frá Kanada og tóku þátt í Íslandsmótinu og hliðarmótum. Það vakti einnig athygli skipuleggjenda að í mótinu voru að þessu sinni leikmenn búsettir á Íslandi frá amk. 11 öðrum löndum þannig að alls voru keppendur af 16 mismunandi þjóðernum í mótinu.
Heildarverðlaunafé var 8.620.000 og skiptist það á milli 20 efstu sæta. Kostnaðarhlutfall var 13,8% sem er það lægsta sem náðst á Íslandsmóti með því fyrirkomulagi sem viðhaft hefur verið síðustu 7 ár að reka mótið án hagnaðar eða taps, enda lækkar hlutfallið eftir því sem fleiri taka þátt í mótinu.
Eftirfarandi skiptu með sér verðlaunafénu og sá sem endaði í 21. sæti (búbblusætinu) fékk í sárabætur miða á ÍM 2025:
1 | Hafþór Sigmundsson | 1.800.000 |
2 | Óli Björn Karlsson | 1.350.000 |
3 | Andrés Vilhjálmsson | 1.000.000 |
4 | Óskar Aðils Kemp | 750.000 |
5 | Jesper Sand Poulsen | 580.000 |
6 | Árni Gunnarsson | 450.000 |
7 | Mario Galic | 370.000 |
8 | Sigurjón Þórðarson | 300.000 |
9 | Þórarinn Kristjánsson Ólafsson | 250.000 |
10 | Sigurður Þengilsson | 210.000 |
11 | Seweryn Brzozowski | 210.000 |
12 | Ívar Örn Böðvarsson | 180.000 |
13 | Steinn Thanh Du Karlsson | 180.000 |
14 | Garðar Geir Hauksson | 180.000 |
15 | Vignir Már Runólfsson | 150.000 |
16 | Börkur Darri Hafsteinsson | 150.000 |
17 | Adam Óttarsson | 150.000 |
18 | Yuri Ishida | 120.000 |
19 | Branimir Jovanovic | 120.000 |
20 | Ingólfur Lekve | 120.000 |
21 | Fionn Sherry | Miði á ÍM 2025 |
Samhliða lokaborðinu var leikið 30K re-entry hliðarmót þar sem 29 tóku þátt og voru entry í mótið samtals 41. Verðlaunafé endaði í 1.045.000 og stóð til að skipta á milli 5 efstu sæta en leikmenn gerðu með sér samkomulag um að bæta við 3 auka verðlaunasætum. Það var Bjarni Þór Lúðvíksson sem bar sigur úr býtum í því móti og hlýtur að launum 390.000.
Mótsstjórar voru þeir Jón Ingi Þorvaldsson, sem einnig sá um skipulag og undirbúning mótsins, og Einar Þór Einarsson. Í störfum gjafara voru Alexander, Rannveig, Nikulás Kai, Berglind, Korneliusz, Edward, Berglaug, Erika, Silla, Bjarni Veigar, Kristján Bragi, Bart og Þorbjörg. Við kunnum þeim öllum bestu þakkir fyrir frábær störf.
Við þökkum Hugaríþróttafélaginu kærlega fyrir þá frábæru aðstöðu sem félagið veitti okkur til að halda mótið og auk þess fyrir frábæra undanmótaröð í allt haust en alls komu 80 miðar út úr undanmótum, þar af 52 úr mótum á vegum Hugaríþróttafélagsins. Einnig komu 24 miðar út úr undanmótum á Coolbet sem hefur eins og fyrri ár reynst okkur ómetanlegur bakhjarl og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir frábært samstarf.
Að lokum minnum við á að mótadagskránni er ekki alveg lokið enn. Íslandsmótin í net-póker eru eftir en þau fara fram á Coolbet í lok nóvember og byrjun desember.
Við óskum Hafþóri til hamingju með titilinn og öðrum verðlaunahöfum helgarinnar til hamingju með árangurinn, þökkum félagsmönnum fyrir góða þátttöku og hlökkum til að sjá ykkur á næsta móti!
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!