Brynjar er Íslandsmeistari í PLO 2025
Íslandsmótinu í Pot-Limit-Omaha lauk rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi með sigri Brynjars Bjarkasonar; sem flestir þekkja eflaust sem “Makkarann”. Í öðru sæti varð Már Wardum og í því þriðja varð Reynir Örn Einarsson. Það hefur löngum verið ljóst að Brynjar sé einn af okkar allra fremstu spilurum og hefur hann m.a. orðið Íslandsmeistari í net-póker tvisvar sinnum og var hann með því fyrstur til að vinna sama titil tvisvar í mótum á vegum PSÍ, og einnig vann hann Coolbet bikarinn þegar hann var haldinn í fyrsta sinn árið 2020. En þetta er í fyrsta sinn sem hann vinnur sigur í live móti á vegum PSÍ.
Mótið hófst klukkan 14:00 og fór fram í salarkynnum Hugaríþróttafélagsins. Þátttakendur voru 19 talsins og keyptu 7 þeirra sig inn aftur en eitt re-entry er leyft í þessu móti. Alls voru því 26 entry í mótið sem er smá fækkun frá því í fyrra en svipað og verið hefur í þessu móti.
Þetta mót hefur á undanförnum árum verið lítillega niðurgreitt af PSÍ og kostnaður mótsins endaði að þessu sinni í 27,5%, m.a. vegna þess að ákveðið var að splæsa í veitingar fyrir þátttakendur og starfsfólk þar sem þetta var síðasti viðburður ársins hjá okkur. Kostnaðarhlutfall var hins vegar fest í 15% og var verðlaunafé því 85% af þátttökugjöldum eða 884.000 og skiptist það á milli 5 efstu með eftirfarandi hætti:
- Brynjar Bjarkason, 340.000
- Már Wardum, 225.000
- Reynir Örn Einarsson, 150.000
- Þórarinn Kristjánsson Ólafsson, 100.000
- Hrannar Hallgrimsson, 70.000
Mótsstjóri var Einar Þór Einarsson, undirbúningur og skipulag mótsins var í höndum Jóns Inga Þorvaldssonar, gjaldkera PSÍ, og í störfum gjafara var úrvalslið Omaha gjafara, þau Alexander, Rannveig, Kai og Berglaug..
Við óskum Brynjari til hamingju með sigurinn og öllum verðlaunahöfum einnig til hamingju með árangurinn. Við þökkum Hugaríþróttafélaginu fyrir að útvega okkur þessa frábæru aðstöðu fyrir mótið og Coolbet fyrir vel heppnuð undanmót og öllum sem komu að skipulagi og framkvæmd mótsins fyrir vel unnin störf!
Þetta var sem fyrr segir síðasti viðburður ársins á vegum PSÍ og við þökkum félagsmönnum fyrir góða þátttöku í mótum ársins og sjáumst eldhress á nýju ári!





Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!