Sigurður er Íslandsmeistari í póker 2025
Íslandsmótinu í póker lauk kl. 17:25 í gær með með sigri Sigurðar Þorgeirssonar eftir mjög stutta heads-up viðureign við Daníel Má Pálsson sem stóð aðeins yfir í 3 hendur. Í þriðja sæti varð Jónas Nordquist. Daníel kom inn á dag 3 með stærsta stakkinn en átti í vök að verjast allan daginn og var kominn niður í 6BB þegar hann og Sigurður, sem þá var með 170BB, enduðu heads-up. Þetta er líklega eitt stysta lokaborð í sögu þessa móts en það stóð aðeins yfir í rétt rúmar 4 klst.
Heildarfjöldi þátttakenda var 106 og tók 51 þátt í degi 1a og 55 á degi 1b og komust samtals 49 þeirra á dag 2. Á degi 2 var leikið frá kl. 14:00 og rétt fram yfir miðnættið en þá stóðu 9 eftir sem mynduðu lokaborðið.
Magnús Valur Böðvarsson mætti á staðinn á degi 3 og var með beina textalýsingu frá lokaborðinu sem finna má hér.

(Lokaborðið á ÍM í póker 2025. Frá vinstri: Hjalti Már Þórisson, Daníel Már Pálsson, Örn Árnason, Egill Þorsteinsson, Þórarinn Kristjánsson Ólafsson, Óskar Örn Eyþórsson, Sigurður Þorgeirsson, Hafþór Sigmundsson. Á myndina vantar Jónas Nordquist)
Heildarverðlaunafé var 7.150.000 og skiptist það á milli 15 efstu sæta. Kostnaðarhlutfall mótsins var 15,7%.
Eftirfarandi skiptu með sér verðlaunafénu og Garðar Geir sem endaði í 16. sæti (búbblusætinu) fékk í sárabætur miða á ÍM 2026:
| 1. Sigurður Þorgeirsson | 1.600.000 |
| 2. Daníel Már Pálsson | 1.200.000 |
| 3. Jónas Nordquist | 900.000 |
| 4. Örn Árnason | 690.000 |
| 5. Hjalti Már Þórisson | 550.000 |
| 6. Óskar Örn Eyþórsson | 450.000 |
| 7. Þórarinn Kristjánsson Ólafsson | 360.000 |
| 8. Egill Þorsteinsson | 280.000 |
| 9. Hafþór Sigmundsson | 220.000 |
| 10. Kristján Bragi Valsson | 170.000 |
| 11. Daniel Jacobsen | 170.000 |
| 12. Hrannar Hallgrimsson | 150.000 |
| 13. Gizur Gottskálksson | 150.000 |
| 14. Ernestas Trofimovas | 130.000 |
| 15. Arnar Gudmundsson | 130.000 |
| 16. Garðar Geir Hauksson | Miði á ÍM 2026 |



Mótsstjórar voru þeir Jón Ingi Þorvaldsson, sem einnig sá um skipulag og undirbúning mótsins, Már Wardum og Einar Þór Einarsson. Í störfum gjafara voru Alexander, Rannveig, Berglaug, Erika, Bjarni Veigar, Bart, Kamila, Maryna, Dísa Lea og Kristjana Rós. Við kunnum þeim öllum bestu þakkir fyrir frábær störf.
Samhliða lokaborðinu var leikið 30K re-entry hliðarmót þar sem 25 tóku þátt og voru entry í mótið samtals 34. Verðlaunafé endaði í 860.000 sem skiptist á milli 5 efstu sæta. Það var Ívar Örn Böðvarsson sem bar sigur úr býtum í því móti og hlýtur að launum 330.000.
Við þökkum Hugaríþróttafélaginu kærlega fyrir þá frábæru aðstöðu sem félagið veitti okkur til að halda mótið og auk þess fyrir frábæra undanmótaröð í allt haust en alls komu 60 miðar út úr undanmótum í þetta sinn, þar af 39 úr mótum á vegum Hugaríþróttafélagsins. Einnig kom 21 miði út úr undanmótum á Coolbet sem hefur eins og fyrri ár reynst okkur ómetanlegur bakhjarl og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir frábært samstarf.

Að lokum minnum við á að mótadagskránni er ekki alveg lokið enn. Íslandsmótin í PLO er eftir en það fer fram nk. laugardag, 15.nóvember kl. 14:00 í sal Hugaríþróttafélagsins.
Við óskum Sigurði til hamingju með titilinn og öðrum verðlaunahöfum helgarinnar til hamingju með árangurinn, þökkum félagsmönnum fyrir góða þátttöku og hlökkum til að sjá ykkur á næsta móti!




Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!