Matte vinnur Stórbokkann…líka!

Já, Matte Bjarni Karjalainen gerði sér lítið fyrir og vann Stórbokkann líka, eftir að hafa tekið niður Smábokkann fyrir aðeins 4 vikum síðan. Þetta er í fyrsta sinn sem sami einstaklingur vinnur báða titlana sama árið, en áður hafði Sveinn Rúnar unnið báða titlana á sitt hvoru árinu og verður hvort tveggja að teljast magnaður árangur hjá þeim báðum. Það er líklega óhætt að segja að þetta sé lukkubolur, en Matte skartaði sama broskallinum fyrir fjórum vikum þegar hann sat fyrir á mynd sem sigurvegari Smábokkans 😉

Alls tóku 29 þátt í mótinu og voru auk þess 14 re-entry þannig að samtals voru 43 entry í mótið sem er besta þátttaka á Stórbokka síðan 2016! Verðlaunafé var samtals 5.235.000 og var kostnaðarhlutfall 13,2%. Verðlaunaféð skiptist á milli 6 efstu leikmanna sem hér segir:

  1. Matte Bjarni Karjalainen, 1.500.000
  2. Gunnar Árnason, 1.150.000
  3. Wilhelm Nordfjord, 865.000
  4. Jónas Tryggvi Stefánsson, 655.000
  5. Tomasz Janusz Mroz, 565.000
  6. Ingólfur Lekve, 500.000

Það var ekki annað að heyra á þátttakendum að rífandi ánægja hefði verið með mótið og það var ekki síst að þakka frábærri aðstöðu í nýjum salarkynnum Hugaríþróttafélagsins í Mörkinni 4.

Einar Þór, ritari PSÍ, stóð vaktina sem mótsstjóri með glæsibrag og Silla, Alexander og Þórunn sáu um gjafarastörfin af einstakri fagmennsku. Það var síðan Jón Ingi, gjaldkeri PSÍ, sem bar hitann og þungann af undirbúningi og skipulagi mótsins.

Við þökkum öllum sem tóku þátt í mótinu fyrir að gera þetta að jafn vel heppnuðum viðburði og raun bar vitni og Veislan.is fær bestu þakkir fyrir glæsilegan 3ja rétta kvöldverð sem þau báru okkur. Hugaríþróttafélagið á miklar þakkir skildar fyrir að leyfa okkur að vígja nýja húsnæðið með Stórbokkanum og við þökkum mótsstjóra og gjöfurum fyrir vel unnin störf!!

Við óskum Matte til hamingju með glæsilegan árangur og Hugaríþróttafélaginu með nýja húsnæðið.

Sjáumst í haust á Íslandsmótunum í PLO og NLH.

Stórbokki 2022!

Stórbokki rís upp frá dauðum laugardaginn 7.maí 2022! Mótið verður að þessu sinni haldið í samstarfi við Hugaríþróttafélagið og fer fram í nýjum glæsilegum salarkynnum félagsins að Mörkinni 4.

Mótið hefst kl. 13:00 og mun standa eitthvað fram yfir miðnættið.

Þátttökugjald er 150.000 kr. og hægt er að kaupa sig aftur inn í mótið ótakarmarkað fyrir 120.000 kr.

Innifalinn í mótsgjaldi er glæsilegur kvöldverður frá Veislunni sem verður framreiddur á mótsstaðnum.

  • Forréttur: Sjávarréttadiskur: Reyklaxamósaic, hörpuskel á vagamesalati, humarfroða í staupi, silungatartar og ferskt salat
  • Aðalréttur: Heilsteikt nautalund með kartöflugratíni og grænpiparsósu.
  • Eftirréttur: Súkkulaði brownies með hvítri súkkulaði skyrmús og berjum.

Hér má sjá nánari upplýsingar um strúktúr og dagskrá mótsins.

Smellið ykkur endilega inn á facebook eventið sem komið er hér.

Undanmót hafa verið undanfarna sunnudaga á Coolbet og verður síðasta mótið á Coolbet sunnudaginn 1.maí kl. 20:00. Eins og undanfarna sunnudaga verður FREEbuy mót kl. 19:15 þar sem hægt er að vinna miða inn í undanmótið fyrir lítið og jafnvel ekkert.

Fyrsta live undanmótið verður hjá Hugaríþróttafélaginu miðvikudaginn 27.apríl.

Matte er Smábokki 2022!

Smábokka lauk núna í kvöld með sigri Matte Bjarna Karjalainen. Matte hafði forystu eftir dag1, var enn með chip-lead á búbblunni þegar 8 voru eftir og sigldi stakknum sínum örugglega í höfn eftir heads-up leik við Benedikt Óskarsson sem hafnaði í öðru sæti.

Þátttakendur voru 40 talsins að þessu sinni og keyptu 13 sig inn aftur þannig að alls voru 53 entry í mótið. Kostnaðarhlutfall mótsins var fest í 15% og var það því lítillega niðurgreitt af PSÍ. Heildarverðlaunafé var 1.125.000 og skiptist það á milli 7 efstu sem hér segir:

  1. Matte Bjarni Karjalainen, 400.000
  2. Benedikt Óskarsson, 255.000
  3. Sævaldur Harðarson, 160.000
  4. Jónas Tryggvi Stefánsson, 110.000
  5. Daníel Ingi Þorsteinsson, 85.000
  6. Agnar Jökull Imsland Arason, 65.000
  7. Jón Óskar Agnarsson, 50.000

Mótsstjórar voru Viktor Lekve, Már Wardum og Einar Þór Einarsson. Í störfum gjafara voru þau Silla, Sasa, Dísa, Rannveig og Guðmundur Helgi. Við þökkum þeim öllum kærlega fyrir vel unnin störf.

Við þökkum Poker Express kærlega fyrir samstarfið og að veita okkur aðgang að aðstöðu félagsins. Einnig þökkum við Coolbet fyrir að halda fyrir okkur undanmót eins og þeim einum er lagið.

Að lokum óskum við Matte til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að sjá félagsmenn á næsta móti, en Stórbokki verður reistur upp frá dauðum þann 7.maí nk!

Matte heldur hróðugur á lokahöndinni, tvist-sjöu
Matte og Benedikt íbyggnir á svip á lokasprettinum

Úrslit á ÍM í net-PLO 2021

Síðasta mót ársins, Íslandsmótið í net-PLO 2021 fór fram sunnudaginn 5. desember og hófst það kl. 18:00. Alls tóku 24 þátt í mótinu og voru að auki 12 re-entry inn í mótið en leyfð voru 2 re-entry á hvern keppanda. Heildarverðlaunafé var €2520 og skiptist á milli 6 efstu keppenda.

Það var Halldór Már Sverrisson (CASINOICE1) sem varð hlutskarpastur eftir lokaeinvígi við Ingu Jónsdóttur (pingz), og í þriðja sæti var Brynjar Bjarkason (makk).

Röð 6 efstu og verðlaunafé var sem hér segir:

  1. Halldór Már Sverrisson (CASINOICE1) – €932
  2. Inga Kristín Jónsdóttir (pingz) – €630
  3. Brynjar Bjarkason (makk) – €378
  4. Kristján Bragi Valsson (kiddi333) – €252
  5. Már Wardum (DFRNT) – €189
  6. Kristinn Pétursson (Hunterinn) – €139

Við óskum Halldóri til hamingju með enn eina rósina í póker-hnappagatið og þökkum Coolbet kærlega fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða.

No description available.

Úrslit á ÍM í net-póker 2021

ÍM í net-póker lauk rétt í þessu eða klukkan 0:21. Það var Óskar Páll Davíðsson (Goggarinn) sem stóð uppi sem sigurvegari eftir lokaeinvígi við Kristján Óla Sigurðsson (Hofdinginn2021). Í þriðja sæti varð síðan Ágúst Daði Guðmundsson (Gianthead). Þess má til gamans geta að Óskar Páll vann miða í Íslandsmótið í “FREEbuy” móti á Coolbet rétt áður en mótið hófst og lagði aðeins út €10 í add-on.

Alls tóku 56 þátt í mótinu, sem er fjölgun um 4 síðan í fyrra, og var heildarverðlaunafé €7840 sem skiptist á milli 8 efstu sem hér segir:

  1. Goggarinn – €2509
  2. Hofdinginn2021 – €1646
  3. Gianthead – €1176
  4. AndrewThomas – €792
  5. SINGIS – €596
  6. AstonWilli19 – €439
  7. Hunterinn – €361
  8. Piper28 – €321

Við óskum Óskari Páli til hamingju með sigurinn og þökkum Coolbet kærlega fyrir frábært samstarf eins og endranær!

Lokaborðið á ÍM í net-póker 2021
Lokastaðan á ÍM í net-póker 2021

Íslandsmótið í net-póker 2021

Íslandsmótið í net-póker hefst kl. 18:00 sunnudaginn 28.nóvember og verður haldið á Coolbet! Þátttökugjald er €150.

Haldin verða undanmót á Coolbet sunnudaga og fimmtudaga fram að mótinu kl. 20:00.

Einnig verður haldið í ÍM í net-PLO og fer það fram viku síðar, sunnudaginn 5.des. kl. 18:00. Þátttökugjald er €75 og boðið er upp á tvö re-entry.

Undanmót fyrir ÍM í net-PLO verða þriðjudaginn 30.nóv og fimmtudaginn 2.des. kl. 20:00.

ATH. að aðild að PSÍ er skilyrði fyrir þátttöku. Til að tryggja þátttökurétt þarf að ganga frá aðild í síðasta lagi kl. 12:00 á hádegi á keppnisdegi.

Eins og venjulega er gengið frá aðild að PSÍ á www.pokersamband.is/shop

Guðmundur Auðun er Íslandsmeistar í póker 2021

Guðmundur Auðun Gunnarsson stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmótinu í póker sem lauk um kl. 20 í kvöld en leikur á lokaborðinu hafði þá staðið í u.þ.b. 6 og hálfa klukkustund. Agnar Jökull Imsland Arason varð í öðru sæti og Hjörtur Atli Guðmundsson í því þriðja. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2017 sem Guðmundur Auðun tekur þátt í Íslandsmótinu en hann hefur lengi verið einn af okkar fremstu spilurum og er þetta hvorki meira né minna en í þriðja sinn sem hann kemst á lokaborð á ÍM í póker.

Alls tóku 90 manns þátt í mótinu að þessu sinni og er óhætt að segja að faraldurinn hafi sett þar strik í reikninginn enda var nokkuð um afskráningar á lokametrum skráningarfrests. Verðlaunafé var samtals 5.800.000 kr. og kostnaðarhlutfall mótsins 14,2%.

Verðlaunafénu var skipt á milli 15 efstu sem hér segir:

  1. Guðmundur Auðun Gunnarsson 1.300.000
  2. Agnar Jökull Imsland Arason 950.000
  3. Hjörtur Atli Guðmundsson 730.000
  4. Már Wardum 580.000
  5. Hlynur Sverrisson 460.000
  6. Dovydas Daunys 360.000
  7. Ísak Atli Finnbogason 280.000
  8. Sævar Ingi Sævarsson 220.000
  9. Einar Þór Einarsson 180.000
  10. Pétur Óskarsson 150.000
  11. Jón Óskar Agnarsson 150.000
  12. Kristján Óli Sigurðsson 120.000
  13. Tomasz Kwiatkowski 120.000
  14. Hafsteinn Ingimundarson 100.000
  15. Gunnar Gunnarsson 100.000

Í 16. sæti varð síðan Wilhelm Norðfjörð og fær hann frían miða á ÍM 2022 en hefð hefur skapast fyrir þeim sárabótum fyrir “búbblusætið”.

Þeir Ísak Atli Finnbogason, Már Wardum náðu þeim góða árangri að komast í annað sinn á lokaborð á sínum ferli, en Ísak Atli vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2017 og Már Wardum náði 3.sæti árið 2019. Sævar Ingi Sævarsson var í fjórða sinn á lokaborði sem er alveg magnaður árangur en hann varð m.a. í öðru sæti á ÍM 2018. Það er einnig gaman að segja frá því að þetta er líklega í fyrsta sinn sem tveir stjórnarmenn í PSÍ komast á lokaborðið, en auk Más Wardum formanns er Einar Þór Einarsson einnig aðalmaður í stjórn PSÍ.

Haldin voru tvö hliðarmót, 15K re-entry mót á laugardag og 20K re-entry mót á sunnudag. Í laugardagsmótinu var það Óskar Páll Davíðsson sem varð hlutskarpastur og á sunnudeginum tók Trausti Pálsson efsta sætið. Heildarverðlaunafé í laugardagsmótinu náði sléttri milljón og er það sennilega stærsta hliðarmót sem haldið hefur verið samhliða ÍM svo lengi sem elstu menn muna.

Við þökkum Poker Express fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd mótsins og fyrir að hýsa okkur í sinum glæsilegu salarkynnum annað skiptið í röð. Einnig þökkum við Hugaríþróttafélaginu fyrir ötullega framgöngu í undanmótahaldi. Coolbet á einnig ávallt skildar þakkir fyrir þétt samstarf við framkvæmd net-undanmóta að vanda. Það er óhætt að segja að undanmót þessara þriggja aðila hafi skipt sköpum til að tryggja góða þátttöku í mótinu en alls voru það 50 manns sem kræktu sér í miða á undanmótum.

Undirbúningur, skipulagning og mótsstjórn var í höndum Jóns Inga Þorvaldssonar, gjaldkera PSÍ, og í störfum gjafara voru Silla, Alexander, Dísa, Ásta María, Inga Kristín, Rannveig, Kristján Bragi, Bryndís, Bjarni Veigar, Berglaug og einnig greip Magnús Valur í störf gjafara auk umsjónar með hliðarmóti. Einnig komu Guðmundur Helgi og Már að ýmsum störfum við undirbúning og framkvæmd. Stjórn PSÍ þakkar öllum sem komu að framkvæmd mótsins með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir vel unnin störf!

Magnús Valur sá einnig um textalýsingu frá lokaborðinu af sinni alkunnu snilld og hana má finna með því að smella hér.

Þótt stærsti viðburður ársins hjá okkur sé að baki er mótaárinu ekki alveg lokið. Íslandsmótin í net-póker verða haldin í lok nóvember og byrjun desember skv. áætlun í samstarfi við Coolbet og einnig erum við að gera það að árlegum viðburði að halda sérstakt mót fyrir gjafarahópinn okkar þar sem við krýnum “gjafarameistarann 2021”.

Að lokum þökkum við öllum félagsmönnum fyrir þátttökuna og sjáumst vonandi sem flest á næsta móti!

Agnar Jökull Imsland Arason, 2.sæti á ÍM 2021
Guðmundur Auðun Gunnarsson, Íslandsmeistari í póker 2021

Hjörtur Atli Guðmundsson, 3. sæti á ÍM 2021

Lokaborð á ÍM 2021

Þá er degi 2 lokið á ÍM í póker 2021 og það liggur fyrir hvaða 9 leikmenn hefja leik á lokaborði á degi 3 sem hefst á morgun, sunnudag kl. 13:00.

Það er Már Wardum, formaður PSÍ, sem hefur forystu eftir dag 2 og byrjar lokaborðið með tvöfaldan meðalstakk.

Fyrsta level sem leikið verður á morgun er 5000/10000/10000 og meðalstakkur er 400.000.

Staðan í upphafi lokaborðsins á morgun er þessi, og hér til hliðar má sjá sætaskipan á lokaborðinu:

  1. Már Wardum 795.000
  2. Hjörtur Atli Guðmundsson 685.000
  3. Agnar Jökull Imsland Arason 632.000
  4. Hlynur Sverrisson 457.000
  5. Sævar Ingi Sævarsson 268.500
  6. Einar Þór Einarsson 265.000
  7. Guðmundur Auðun Gunnarsson 248.000
  8. Ísak Atli Finnbogason 144.000
  9. Dovydas Daunys 108.000

Staðan á ÍM 2021 eftir dag 1

Íslandsmótið í póker hófs á fimmtudag kl. 17 og nú á miðnætti lauk degi 1b. Fjöldi þátttakenda á degi 1a var 39 og síðan bættust 51 við á degi 1b. Heildarfjöldi þáttttakenda er því 90 þetta árið.

Verðlaunafé á mótinu er samtals 5.800.000 og mun skiptast á milli 15 efstu sæta með 1.300.000 fyrir fyrsta sæti. Kostnaðarhlutfall mótsins er því 14,1%

41 komust áfram á dag og hefjast leikar aftur núna kl. 13:00. Húsið opnar fyrir leikmenn kl. 12:45.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með gangi mála er tilvalið að skella sér í hliðarmót sem hefst kl. 15:00 en þátttökugjald í því er 15.000 og er ótakmarkað re-entry.

Hér má sjá sætaskipan og stakkstærð í upphafi dags 2:

Pétur Óskarsson 224.900
Agnar Jökull Imsland Arason 197.200
Matte Bjarni Karjalainen 195.200
Sævar Ingi Sævarsson 168.800
Már Wardum 167.300
Tomasz Kwiatkowski 158.300
Einar Þór Einarsson 144.000
Alex Daníel Dúason 131.900
Valgeir Magnússon 127.000
Daníel Pétur Axelsson 124.700
Kristján Óli Sigurðsson 124.500
Dovydas Daunys 122.400
Hjörtur Atli Guðmundsson 120.300
Þorgeir Karlsson 97.800
Hafsteinn Ingimundarson 96.300
Hlynur Sverrisson 93.900
Guðmundur Auðun Gunnarsson 93.300
Wilhelm Nordfjord 91.000
Alexandru Marian Florea 89.800
Valdimar Jóhannsson 89.700
Gunnar Gunnarsson 80.300
Ingvar Óskar Sveinsson 72.300
Davíð Ómar Sigurbergsson 62.200
Ingó Lekve 60.300
Hannes Guðmundsson 57.300
Davíð Þór Rúnarsson 55.200
Sigurður Dan Heimisson 54.100
Ísak Atli Finnbogason 52.700
Jón Óskar Agnarsson 52.400
Arnar Björnsson 51.300
Guðmundur H. Helgason 50.400
Finnur Sveinbjörnsson 46.600
Ellert Magnason 36.400
Leó Sigurðsson 36.000
Aron Thanh Bui 34.300
Ástþór Ágústsson 27.800
Steinar Geir Ólafsson 26.500
Haukur Einarsson 23.800
Andrés Vilhjálmsson 22.800
Atli Freyr Gíslason 20.400
Júlíus Pálsson 18.600

Íslandsmótið í póker 2021

Íslandsmótið í póker 2021 verður haldið dagana 4.-7. nóv. og mun það fara fram í sal Póker Express að Nýbýlavegi 8, Kópavogi.

Dagur 1 verður leikinn í tvennu lagi líkt og síðast, dagur 1a fimmtudaginn 4. nóv. og dagur 1b föstudaginn 5. nóv. Leikur hefst kl. 17:00 báða dagana. Dagur 2 hefst síðan kl. 13:00 laugardaginn 6.nóv.

Skráning og greiðsla þátttökugjalda fer að venju fram á vef PSÍ  (www.pokersamband.is/shop)

Við minnum á að PSÍ tekur ekki við greiðslum í reiðufé en hægt er að greiða með bæði debet- og kreditkortum á vef PSÍ.

Þátttökugjaldið er það sama og síðast, kr. 75.000, fram til hádegis miðvikudaginn 3. nóv. og hækkar þá í kr. 80.000.

Nánari upplýsingar um dagskrá og strúktúr má finna hér.


Talsverð umræða skapaðist í kringum þá ákvörðun að halda ÍM í samstarfi við pókerklúbb þegar það var fyrst gert í febrúar á þessu ári og því vill stjórn PSÍ koma eftirfarandi á framfæri:

Núverandi stjórn PSÍ, sem setið hefur að mestu óbreytt undanfarin 3 ár, hefur jafnt og þétt aukið umsvif PSÍ í mótahaldi síðan hún hóf störf.  Þar sem skipulagning og framkvæmd móta PSÍ lendir undantekningalaust á sömu 2-4 aðilunum hefur stjórnin unnið markvisst að því að einfalda framkvæmd móta, einfaldlega til þess að þeir sem standa ítrekað í þeirri vinnu sem mótahaldinu fylgir endist í því til lengri tíma.  

Í þessu sambandi hefur samstarf við pókerklúbba annars vegar og Coolbet hins vegar skipt sköpum.  Það að þessir aðilar leggi til aðstöðu og umgjörð utan um mót á vegum PSÍ er lykilatriði í því að hægt sé að halda mótin með þolanlegri fyrirhöfn annars vegar og lágmarks kostnaði fyrir félagsmenn hins vegar.  

Íslandsmótið hefur þar til á þessu ári verið haldið án beinnar aðkomu klúbba sem helgast einna helst af því að enginn starfandi klúbbur hefur haft aðstöðu til að halda mót af þeirri stærðargráðu og hefur því myndast hefð um að halda mótið í sölum sem teknir eru á leigu.

Breyting varð á þessu í febrúar 2021. Þá hafði enn ekki verið hægt að halda ÍM fyrir 2020 vegna samkomutakmarkana en þegar glufa opnaðist loks fyrir mótahald í febrúar stóð stjórn PSÍ frammi fyrir vali um að drífa í að halda mótið með eins einföldum hætti og eins litlum tilkostnaði og hægt væri, eða að öðrum kosti að sleppa því að halda mót fyrir árið 2020. 

Ákveðið var að ganga að tilboði Poker Express um samstarf um mótshaldið en það var þá í fyrsta sinn sem vikið var frá fyrri hefð.  Mótshaldið tókst í alla staði einkar vel og þegar upp var staðið var óhætt að segja að umgjörð og framkvæmd mótsins hafi öll verið með því besta sem gerst hefur í sögu PSÍ.

Í framhaldi af því hefur stjórn PSÍ verið í viðræðum við forsvarsmenn þeirra klúbba sem virkastir eru í mótahaldi um það að félögin komi að framkvæmd Íslandsmóta í framtíðinni.  M.a. var rætt við forsvarsmenn Hugaríþróttafélagsins en því miður sáu þeir sér ekki fært að koma að framkvæmd mótsins þetta árið, en við vonumst til þess að það breytist á því næsta sem og að fleiri klúbbar sjái sér hag í slíku samstarfi á næstu árum.

Við sem skipum stjórn PSÍ teljum að með því að skapa nýja hefð um framkvæmd Íslandsmóta með þessum hætti sé hag allra best borgið, bæði okkar sem sitjum í stjórn og mótanefnd og þurfum að vinna verkin, félagsmanna sem fá hagkvæmari rekstur á mótum og þar með hærra hlutfall í verðlaunafé, og hagur þeirra félaga sem halda mótin með okkur hverju sinni að fá inn nýtt fólk og kynningu fyrir starfsemi sína.

Við gerum okkur grein fyrir því að þessi breyting samræmist ekki hugmyndum allra um hvernig staðið skuli að Íslandsmótum í póker en að okkar mati eru kostirnir við hana óumdeilanlegir.  Og að venju hvetjum við að sjálfsögðu alla sem hafa ákveðnar hugmyndir um það hvernig skuli staðið að mótahaldi á vegum PSÍ til þess að gefa kost á sér í stjórn eða mótanefnd á næsta aðlfundi.  Það vantar alltaf fleiri hendur upp á dekk.

Við vonum að það náist þétt samstaða um þetta nýja fyrirkomulag og að félagsmenn fjölmenni áfram á mót óháð því hvar þau eru haldin hverju sinni.