Íslandsmótið í póker 2021 verður haldið dagana 4.-7. nóv. og mun það fara fram í sal Póker Express að Nýbýlavegi 8, Kópavogi.
Dagur 1 verður leikinn í tvennu lagi líkt og síðast, dagur 1a fimmtudaginn 4. nóv. og dagur 1b föstudaginn 5. nóv. Leikur hefst kl. 17:00 báða dagana. Dagur 2 hefst síðan kl. 13:00 laugardaginn 6.nóv.
Skráning og greiðsla þátttökugjalda fer að venju fram á vef PSÍ (www.pokersamband.is/shop)
Við minnum á að PSÍ tekur ekki við greiðslum í reiðufé en hægt er að greiða með bæði debet- og kreditkortum á vef PSÍ.
Þátttökugjaldið er það sama og síðast, kr. 75.000, fram til hádegis miðvikudaginn 3. nóv. og hækkar þá í kr. 80.000.
Nánari upplýsingar um dagskrá og strúktúr má finna hér.
Talsverð umræða skapaðist í kringum þá ákvörðun að halda ÍM í samstarfi við pókerklúbb þegar það var fyrst gert í febrúar á þessu ári og því vill stjórn PSÍ koma eftirfarandi á framfæri:
Núverandi stjórn PSÍ, sem setið hefur að mestu óbreytt undanfarin 3 ár, hefur jafnt og þétt aukið umsvif PSÍ í mótahaldi síðan hún hóf störf. Þar sem skipulagning og framkvæmd móta PSÍ lendir undantekningalaust á sömu 2-4 aðilunum hefur stjórnin unnið markvisst að því að einfalda framkvæmd móta, einfaldlega til þess að þeir sem standa ítrekað í þeirri vinnu sem mótahaldinu fylgir endist í því til lengri tíma.
Í þessu sambandi hefur samstarf við pókerklúbba annars vegar og Coolbet hins vegar skipt sköpum. Það að þessir aðilar leggi til aðstöðu og umgjörð utan um mót á vegum PSÍ er lykilatriði í því að hægt sé að halda mótin með þolanlegri fyrirhöfn annars vegar og lágmarks kostnaði fyrir félagsmenn hins vegar.
Íslandsmótið hefur þar til á þessu ári verið haldið án beinnar aðkomu klúbba sem helgast einna helst af því að enginn starfandi klúbbur hefur haft aðstöðu til að halda mót af þeirri stærðargráðu og hefur því myndast hefð um að halda mótið í sölum sem teknir eru á leigu.
Breyting varð á þessu í febrúar 2021. Þá hafði enn ekki verið hægt að halda ÍM fyrir 2020 vegna samkomutakmarkana en þegar glufa opnaðist loks fyrir mótahald í febrúar stóð stjórn PSÍ frammi fyrir vali um að drífa í að halda mótið með eins einföldum hætti og eins litlum tilkostnaði og hægt væri, eða að öðrum kosti að sleppa því að halda mót fyrir árið 2020.
Ákveðið var að ganga að tilboði Poker Express um samstarf um mótshaldið en það var þá í fyrsta sinn sem vikið var frá fyrri hefð. Mótshaldið tókst í alla staði einkar vel og þegar upp var staðið var óhætt að segja að umgjörð og framkvæmd mótsins hafi öll verið með því besta sem gerst hefur í sögu PSÍ.
Í framhaldi af því hefur stjórn PSÍ verið í viðræðum við forsvarsmenn þeirra klúbba sem virkastir eru í mótahaldi um það að félögin komi að framkvæmd Íslandsmóta í framtíðinni. M.a. var rætt við forsvarsmenn Hugaríþróttafélagsins en því miður sáu þeir sér ekki fært að koma að framkvæmd mótsins þetta árið, en við vonumst til þess að það breytist á því næsta sem og að fleiri klúbbar sjái sér hag í slíku samstarfi á næstu árum.
Við sem skipum stjórn PSÍ teljum að með því að skapa nýja hefð um framkvæmd Íslandsmóta með þessum hætti sé hag allra best borgið, bæði okkar sem sitjum í stjórn og mótanefnd og þurfum að vinna verkin, félagsmanna sem fá hagkvæmari rekstur á mótum og þar með hærra hlutfall í verðlaunafé, og hagur þeirra félaga sem halda mótin með okkur hverju sinni að fá inn nýtt fólk og kynningu fyrir starfsemi sína.
Við gerum okkur grein fyrir því að þessi breyting samræmist ekki hugmyndum allra um hvernig staðið skuli að Íslandsmótum í póker en að okkar mati eru kostirnir við hana óumdeilanlegir. Og að venju hvetjum við að sjálfsögðu alla sem hafa ákveðnar hugmyndir um það hvernig skuli staðið að mótahaldi á vegum PSÍ til þess að gefa kost á sér í stjórn eða mótanefnd á næsta aðlfundi. Það vantar alltaf fleiri hendur upp á dekk.
Við vonum að það náist þétt samstaða um þetta nýja fyrirkomulag og að félagsmenn fjölmenni áfram á mót óháð því hvar þau eru haldin hverju sinni.