Guðmundur Auðun Gunnarsson stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmótinu í póker sem lauk um kl. 20 í kvöld en leikur á lokaborðinu hafði þá staðið í u.þ.b. 6 og hálfa klukkustund. Agnar Jökull Imsland Arason varð í öðru sæti og Hjörtur Atli Guðmundsson í því þriðja. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2017 sem Guðmundur Auðun tekur þátt í Íslandsmótinu en hann hefur lengi verið einn af okkar fremstu spilurum og er þetta hvorki meira né minna en í þriðja sinn sem hann kemst á lokaborð á ÍM í póker.
Alls tóku 90 manns þátt í mótinu að þessu sinni og er óhætt að segja að faraldurinn hafi sett þar strik í reikninginn enda var nokkuð um afskráningar á lokametrum skráningarfrests. Verðlaunafé var samtals 5.800.000 kr. og kostnaðarhlutfall mótsins 14,2%.
Verðlaunafénu var skipt á milli 15 efstu sem hér segir:
- Guðmundur Auðun Gunnarsson 1.300.000
- Agnar Jökull Imsland Arason 950.000
- Hjörtur Atli Guðmundsson 730.000
- Már Wardum 580.000
- Hlynur Sverrisson 460.000
- Dovydas Daunys 360.000
- Ísak Atli Finnbogason 280.000
- Sævar Ingi Sævarsson 220.000
- Einar Þór Einarsson 180.000
- Pétur Óskarsson 150.000
- Jón Óskar Agnarsson 150.000
- Kristján Óli Sigurðsson 120.000
- Tomasz Kwiatkowski 120.000
- Hafsteinn Ingimundarson 100.000
- Gunnar Gunnarsson 100.000
Í 16. sæti varð síðan Wilhelm Norðfjörð og fær hann frían miða á ÍM 2022 en hefð hefur skapast fyrir þeim sárabótum fyrir “búbblusætið”.
Þeir Ísak Atli Finnbogason, Már Wardum náðu þeim góða árangri að komast í annað sinn á lokaborð á sínum ferli, en Ísak Atli vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2017 og Már Wardum náði 3.sæti árið 2019. Sævar Ingi Sævarsson var í fjórða sinn á lokaborði sem er alveg magnaður árangur en hann varð m.a. í öðru sæti á ÍM 2018. Það er einnig gaman að segja frá því að þetta er líklega í fyrsta sinn sem tveir stjórnarmenn í PSÍ komast á lokaborðið, en auk Más Wardum formanns er Einar Þór Einarsson einnig aðalmaður í stjórn PSÍ.
Haldin voru tvö hliðarmót, 15K re-entry mót á laugardag og 20K re-entry mót á sunnudag. Í laugardagsmótinu var það Óskar Páll Davíðsson sem varð hlutskarpastur og á sunnudeginum tók Trausti Pálsson efsta sætið. Heildarverðlaunafé í laugardagsmótinu náði sléttri milljón og er það sennilega stærsta hliðarmót sem haldið hefur verið samhliða ÍM svo lengi sem elstu menn muna.
Við þökkum Poker Express fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd mótsins og fyrir að hýsa okkur í sinum glæsilegu salarkynnum annað skiptið í röð. Einnig þökkum við Hugaríþróttafélaginu fyrir ötullega framgöngu í undanmótahaldi. Coolbet á einnig ávallt skildar þakkir fyrir þétt samstarf við framkvæmd net-undanmóta að vanda. Það er óhætt að segja að undanmót þessara þriggja aðila hafi skipt sköpum til að tryggja góða þátttöku í mótinu en alls voru það 50 manns sem kræktu sér í miða á undanmótum.
Undirbúningur, skipulagning og mótsstjórn var í höndum Jóns Inga Þorvaldssonar, gjaldkera PSÍ, og í störfum gjafara voru Silla, Alexander, Dísa, Ásta María, Inga Kristín, Rannveig, Kristján Bragi, Bryndís, Bjarni Veigar, Berglaug og einnig greip Magnús Valur í störf gjafara auk umsjónar með hliðarmóti. Einnig komu Guðmundur Helgi og Már að ýmsum störfum við undirbúning og framkvæmd. Stjórn PSÍ þakkar öllum sem komu að framkvæmd mótsins með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir vel unnin störf!
Magnús Valur sá einnig um textalýsingu frá lokaborðinu af sinni alkunnu snilld og hana má finna með því að smella hér.
Þótt stærsti viðburður ársins hjá okkur sé að baki er mótaárinu ekki alveg lokið. Íslandsmótin í net-póker verða haldin í lok nóvember og byrjun desember skv. áætlun í samstarfi við Coolbet og einnig erum við að gera það að árlegum viðburði að halda sérstakt mót fyrir gjafarahópinn okkar þar sem við krýnum “gjafarameistarann 2021”.
Að lokum þökkum við öllum félagsmönnum fyrir þátttökuna og sjáumst vonandi sem flest á næsta móti!