Pókersamband Íslands
Lög

1. kafli. Nafn og tilgangur.

1. grein.

Nafn sambandsins er PÓKERSAMBAND ÍSLANDS, skammstafað PSÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein.

Tilgangur sambandsins er:

Að vera æðsti aðili í landinu um pókermálefni og stuðla að útbreiðslu og kynningu á póker.
Að halda árlega Íslandsmót í póker þar sem öllum félagsmönnum innan Pókersambandsins skal heimil þátttaka. Á Íslandsmóti skal keppa í einmenningskeppni í No Limit Texas Hold’em póker, svo og öðrum greinum sem stjórn ákveður hverju sinni.
Að ákveða hvar, hvenær og á hvern hátt skuli taka þátt í keppni við erlenda aðila.
Að sjá um innkaup á spilum, bókum, áhöldum og eyðublöðum og selja þau á hóflegu verði.
Að sjá um að alþjóðlegum hefðum og venjum í póker sé fylgt í keppni sambandsfélaganna og spilarar sýni háttvísi í samskiptum sínum.
Að vinna að sem bestu samstarfi milli sambandsfélaga og skera endanlega úr deilumálum, sem kunna að rísa milli þeirra eða einstakra félagsmanna.
Að hafa forgöngu um að efla innra starf og veita aðildarfélögum alla mögulega aðstoð sem að gagni mætti koma.
Að stuðla að fræðslu um ábyrga spilamennsku og halda úti ráðgjöf til spilafíkla.
Að stuðla að því að áhugamannapóker verði ótvírætt löglegur á Íslandi. Ekki er um að ræða atvinnupóker eða rekstur pókerspilavíta.
Að stuðla að því að íslandsmeistari sambandsins taki þátt á World Series of Poker, main event á ári hverju.
3. kafli. Stjórn og árssþing.

3. grein.

Á milli ársþinga er æðsta vald í málefnum sambandsins í höndum stjórnar, sem skipuð skal 7 mönnum sem kosnir eru á ársþingi.

Formann skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn og 4 meðstjórnendur til eins árs.

Stjórnin skal á sínum fyrsta fundi skipta með sér verkum og skal skipa í eftirtalin störf innan stjórnarinnar: Varaformaður, gjaldkeri og ritari. Stjórninni er heimilt að mynda þriggja manna framkvæmdaráð innan stjórnarinnar, sem annast daglega stjórn sambandsins í umboði og eftir framkvæmdaáætlun stjórnarinnar. Stjórninni skal heimilt að ráða framkvæmdastjóra sem annist daglegan rekstur í umboði stjórnar.

Stjórnin skal framfylgja ályktunum og ákvörðunum ársþings og vera félögum til aðstoðar um pókermálefni. Mikilsháttar fjárskuldbindingar skulu háðar samþykki stjórnar. Eftir að ný stjórn kemur saman skal hún skipa í mótanefnd og laga- og keppnisreglnanefnd. Skal hvor þessara nefnda vera skipuð 3 mönnum. Stjórnin skal að auki skipa þrjá varamenn í mótanefnd. Nefndirnar skulu vera sem mest sjálfstæðar í störfum sínum. Í ákvörðunum sínum skulu þær vera bundnar af alþjóðlegum hefðum og venjum í póker sem ársþing og stjórn setja fram í formi reglna eða reglugerða.

Formenn nefnda skulu að jafnaði vera úr stjórn. Formenn fastanefnda skulu flytja skýrslu um störf nefndanna á ársþingi PSÍ. Mótanefnd skal hafa yfirumsjón með öllum mótum sem haldin eru á vegum PSÍ og hefur æðsta vald í mótum á vegum PSÍ. Hægt er að áfría úrskurðum mótanefndar er varðar lög og keppnisreglur til laga- og keppnisreglnanefnd. Verkefni laga- og keppnisreglnanefnd er að fjalla um og ákvarða hvort farið hefur verið eftir keppnisreglum. Laga og keppisreglunefnd skal hafa yfirumsjón með öllum breytingum á lögum og keppnisreglum. Telji hún ástæðu til breytinga á lögunum leggur hún fram tillögur sínar fyrir stjórn PSÍ til framlagningar á ársþingi eða til ákvörðunar ef um er að ræða breytingar á reglugerð sem sett er af stjórn. Við meðferð mála hjá nefndum sambandsins skal eftir því sem kostur er, taka mið af almennum stjórnsýslureglum og gæta þess í hvívetna að mál, sem komi til kast þeirra, hljóti réttláta og hlutlausa umfjöllun. Hver nefnd skal því færa til bókar fundi sína og þá úrskurði sem hún kann að kveða upp.

4. grein.

Ársþing fer með æðsta vald í málefnum sambandsins og skal haldið árlega þriðju helgi í októbermánuði. Stjórnin boðar til þess með þriggja vikna fyrirvara, en dagskrá skal send út með einnar viku fyrirvara. Óski einstök félög eftir því, að bera fram tillögu um lagabreytingar á þinginu, skal félagið senda þær til stjórnar eigi síðar en 1. sept., og skal þeirra getið í útsendri dagskrá. Rétt til setu á þinginu eiga allir félagsmenn PSÍ. Hver félagsmaður hefur eitt atkvæði, en getur þó farið með umboð fyrir einn annan félaga. Stjórninni er heimilt að bjóða gestum til þingsins sem áheyrnarfulltrúum.

5. grein.

Á ársþingi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:

Þingsetning.
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Stjórn gefur skýrslu um starfsemi sambandsins frá síðasta þingi.
Formenn fastanefnda gefa skýrslu um starfsemi nefndanna.
Reikningar sambandsins lagðir fram
Lagabreytingar.
Kosning aðalstjórnar samkvæmt 3. grein.
Ákvörðun árgjalds.
Önnur mál, sem löglega eru fram borin.
6. grein.

Aukaþing má halda, ef meirihluti stjórnar telur það nauðsynlegt. Stjórn er skylt að boða til aukaþings, ef þess er óskað af félögum, sem í eru 1/3 hluti allra félagsmanna. Til aukaþings skal boða með þriggja vikna fyrirvara.

7. grein.

Reiknings- og starfsár sambandsins er frá 1. september til 31. ágúst. Reikningar sambandsins skulu færðir af endurskoðanda sem kosinn er til eins árs í senn á ársþingi. Ársreikningi sambandsins skal fylgja eignaskrá. Tveir skoðunarmenn reikninga, sem kosnir eru til tveggja ára í senn á ársþingi, skulu yfirfara reikninga sambandsins. Athugasemdir sínar ef einhverjar eru, skulu þeir gera skriflega og senda stjórn sem skal leggja þær fyrir þingið. Endurskoðun skal lokið 10 dögum fyrir ársþing.

4. kafli. Ýmis aðildarákvæði.

8. grein.

Hver félagi skal árlega greiða árgjald til PSÍ, samkvæmt ákvörðun ársþingsins og skal árgjaldið vera ákveðin krónutala á hver félagsmann. Miðaða skal árgjöld við starfsár sambandsins. Það er skilyrði fyrir þátttöku í mótum á vegum PSÍ, að viðkomandi félagi hafi greitt árgjald sitt til Pókersambandsins. Stjórnin ákveður þátttökugjald og verðlaun í mótum sínum. Þátttökugjöld og aðgangseyrir að mótum sambandsins renna til PSÍ.

5. kafli. Innlend og erlend mót.

9. grein.

Stjórnin sér um að Íslandsmót séu haldin árlega. Almennar keppnisreglur skulu samþykktar á ársþingi og nægir einfaldur meirihluti til breytinga á þeim. Stjórnin skal sjá um, að fyrir hvert mót á þess vegum sé í gildi sérstök reglugerð.

10. grein.

Stjórnin ákveður alfarið á hvern hátt skuli velja keppendur til þátttöku í leiki við erlenda aðila á vegum sambandsins. Ef fjárhagur Pókersambandsins leyfir skal það taka þátt í ferðakostnaði þeirra spilara, sem taka þátt í keppni við erlenda aðila á þess vegum, samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Stjórninni skal heimilt að greiða kostnað sem keppendur verða fyrir og verðlauna keppendur með fjárframlögum.

7. kafli. Úrskurðarvald í félagslegum þrætum.

11. grein.

Einstökum félagsmönnum er skylt að hlíta úrskurðum og ákvörðunum stjórnar, innan þess ramma sem lög sambandsins mæla fyrir um á hverjum tíma. Stjórnin getur án rökstuðnings vikið brotlegum félaga úr sambandinu, en leggja skal málið fyrir næsta ársþing.

8. kafli. Lagabreytingar.

12. grein.

Lögum þessum verður ekki breytt nema á ársþingi sambandsins sem boðað hefur verið til á sama hátt og reglulegs sambandsþings, enda hafi lagabreytinga verið getið í dagskrá þingsins og þær hlotið 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Breytingar á lögum þessum taka þegar gildi.