Smábokkinn 2018 verður haldinn 7.-9. júní

Smábokkinn 2018 verður haldinn á pókerklúbbnum Casa, sem er á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis (gengið inn úr “Fógetagarðinum” og niður í kjallara), dagana 7.-9. júní nk.

Í fyrra voru keppendur alls 108 talsins og var þetta fjölmennasta mót ársins.

Boðið verður upp á tvo möguleika að spila dag 1, fimmtudag og föstudag og síðan verður dagur 2 spilaður til enda á laugardeginum.

Dagskráin verður eftirfarandi:

Fimmtudagur 7.júní kl. 19:00 – Dagur 1A  (level 1-9)
Föstudagur 8.júní kl. 19:00 – Dagur 1B  (level 1-9)
Laugardagur 9.júní kl. 13:00 – Dagur 2  (leikið til enda)

Leikin verða 30 mínútna level og verður strúktúr mótsins með svipuðum hætti og í fyrra og verður hann birtur hér á næstu dögum.

Dagur 1A/B verður leikinn án gjafara til að halda kostnaði við mótið í lágmarki en á degi 2 verða gjafarar.

Ekki verður hægt að kaupa sig aftur inn sama dag og leikmaður fellur úr leik, en þeim sem falla úr leik á degi 1A gefst kostur á að kaupa sig inn aftur einu sinni á degi 1B.

Þátttökugjald er kr. 20.000 ef greitt er fyrir miðnætti mánudagsins 4.júní, eftir það hækkar gjaldið í 23.000.  Ath. að þeir sem kaupa sig inn aftur á degi 1B greiða því hærra gjaldið.  Allir sem greitt hafa félagsgjald PSÍ fyrir 2018 eru gjaldgengir í mótið og er gjaldið kr. 6000 fyrir árið 2018.  Hægt er að ganga frá mótsgjaldinu og félagsgjaldinu í einni greiðslu í gegnum vefinn hjá okkur.

Einungis verður tekið við greiðslum í gegnum vef PSÍ, ekki verður hægt að greiða með reiðufé á staðnum.

Halldór Már er Omaha meistari 2018

Íslandsmótið í PLO (Pot-limit Omaha) fór fram á Casa í gær, laugardaginn 12. maí 2018.  Þátttakendur voru 14 talsins og var þátttökugjald kr. 30.000.

Sigurvegari mótsins varð Halldór Már Sverrisson og hlaut að launum kr. 171þús auk verðlaunagrips og nafnbótarinnar Íslandsmeistari í PLO 2018.  Í öðru sæti varð Kári Sigurðsson með kr. 101þús og í þriðja sæti varð Ívar Örn Böðvarsson með kr. 67þús.

Við þökkum þeim sem komu að framkvæmd mótsins, Einari Þór Einarssyni mótsstjóra og Kristjáni og Alexander fyrir að sjá um gjafarahlutverkið.  Mótið var haldið í samstarfi við Casa sem sá okkur fyrir aðstöðu og Pokerstore.is sem sá um að útvega búnað fyrir mótið og við þökkum þeim fyrir samstarfið!

Og síðast en ekki síst óskum nýkrýndum PLO meistara til hamingju með titilinn!

Mótadagskrá 2018

Þá er starf nýrrar stjórnar og mótanefndar loksins að komast á skrið og liggur nú fyrir mótadagskrá fyrir árið 2018. Við viljum biðjast velvirðingar á þeirri töf sem hefur orðið á að kynna dagskrána en hún er eftirfarandi (þátttökugjald innan sviga):

12.maí Íslandsmót í PLO – (kr. 30.000)
7.-9. júní Smábokki – (kr. 20.000)
1. sept Stórbokki – (kr. 120.000)
5.-7. okt. Íslandsmót – (kr. 60.000) (ath. breytta dagsetningu)
2. des. Online Íslandsmót – (kr. 15.000)
9. des. Online PLO Íslandsmót – (kr. 10.000)

Fyrsta mótið verður semsagt laugardaginn 12.maí og verður haldið á Casa og hefst kl. 14:00. Mótsstjóri verður Einar Þór Einarsson. Skráning er hafin á www.pokersamband.is (staðsetjið músina yfir hnappinn kaupa miða og þá birtist möguleiki á að greiða félagsgjald annars vegar og skráningargjald fyrir PLO mót hins vegar).

Félagsgjald fyrir árið 2018 er kr. 6000 og er reikningsár PSÍ núna 1.janúar – 31.desember eftir breytingar sem gerðar voru á lögum sambandsins á nýliðnum aðalfundi.

Ath. að mótadagskráin getur átt eftir að taka breytingum (bæði dagsetningar og þátttökugjöld) en við munum gera okkar besta til að kynna slíkar breytingar með góðum fyrirvara.