Stærstu pókermót sögunnar
Þetta eru athyglisverðir tímar fyrir margra hluta sakir og ekki síst það hvernig net-póker senan er að takast á loft á undanförnum vikum. Hvert metið á fætur öðru er slegið í aðsókn og verðlaunafé á stórum net-mótum, bæði á alþjóðlegum vettvangi og ekki síður hér á landi.
Þann 21. mars sl. hélt PokerStars upp á 10 ára afmæli eins vinsælasta mótsins á þeim bæ, Sunday Million. Þátttökugjald var $215 og í verðlaunafé voru tryggðar $12,5 milljónir. Fjöldi skráninga í mótið endaði síðan í 93.016 og varð verðlaunaféð því á endanum $18,6 milljónir, sem er líklega hæsta verðlaunafé í net-móti fyrr eða síðar.
Alls komu 67 skráningar frá Íslendingum í mótið en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd skráðu sig nokkrir oftar en einu sinni, en ótakmarkað re-entry var í mótið. Bestum árangri íslensku keppendanna náði Chipm0nk3y sem varð í 475. sæti með $4081 í verðlaunafé.
Og hér á landi hafa einnig verið slegin met, hvert á eftir öðru. Kristján Óli Sigurðsson hóf rétt fyrir páska að halda vikuleg mót á sunnudagskvöldum í samstarfi við Coolbet undir yfirskriftinni “Pókermót Höfðingjans”. Strax í fyrsta móti var fjöldi þátttakenda um 200 sem er á pari við fjölmennustu Íslandsmótin sem haldin voru 2009-2011. Á Pálmasunnudag fór fjöldinn í 355 og á páskadag var svo enn eitt metið slegið en þá tóku alls 419 manns þátt í Páskamóti Höfðingjans og er það því fjölmennasta pókermót Íslandssögunnar, eftir því sem við komumst næst. Höfðinginn og Coolbet tryggðu €10.000 í verðlaunafé og endaði það í €13.620.
Í aðdragandanum að Páskamótinu var síðan tilkynnt um að búið væri að negla niður röð 7 móta og færi sigurvegarinn úr hverju móti á lokaborð ásamt Höfðingjanum (Kristjáni Óla) og myndu keppa þar um €5000 verðlaun.
Þetta framtak Kristjáns Óla er óneitanlega frábær lyftistöng fyrir póker á Íslandi og vonandi að margir af þeim sem eru að spila í net-heimum núna, á meðan þetta ástand varir, skili sér síðan að pókerborðinu í haust þegar við höldum Íslandsmótið okkar. Við fylgjumst spennt með framhaldinu og því hvort enn fleiri met verði slegin…